Gleðigengið Tríó Akureyrar með þrenna tónleika í haust

mth@vikubladid.is

Gleðigengið Tríó Akureyrar og Ella Vala Ármannsdóttir munu halda upp á haustið með söng og hressleika á þremur stöðum á Norðurlandi á næstu þremur vikum:

Hinir fyrstu verða í Bergi, Dalvík föstudagskvöldið, 7. október  kl. 20, Októbergleði og eru hluti af tónleikaröðinni Klassík í Bergi og styrkt af Menningarsjóði Dalvíkurbyggðar.

Þá liggur leiðin í Skjólbrekku við Skútustaði í Mývatnssveit en tónleikar verða þar sunnudaginn 16. október kl. 16. Um er að ræða fjölskyldu-haustgleði í samstarfi við Kvenfélagið Iðunni sem selur veitingar meðan á skemmtun stendur, en tónleikarnir njóta styrks frá Skútustaðahreppi.

Þriðju og síðustu tónleikarnir í röðinni verða í Laugarborg, Hrafnagili, laugardaginn 22. október kl. 16. Tónleikarnir eru styrktir af Samfélagssjóði Norðurorku og eru einnig með yfirskriftina fjölskyldu- haustgleði, en þær samkomur eru blanda af samsöng, vöfflum og gleði segir í tilkynningu.

„Hress lög og róleg í bland, eitthvað til að létta lundina, eitthvað til að dilla sér við og eitthvað til að syngja með. Október-réttarfestið er hins vegar aðeins sterkari blanda af íslenskum réttarsöngvum og þýskum októberfest-lögum frá Þýskalandi og Austurríki.“

Tríó Akureyrar samanstendur af þeim Valmari Väljaots fiðluleikara, organista, kórstjóra o.fl., Jóni Þorsteini Reynissyni harmonikkuleikara, söngvara og tónlistarkennara, og Erlu Dóru Vogler söngkonu og verkefnastjóra. Fyrir haustdagskrána hafa þau fengið til liðs við sig hina ofur svölu Ellu Völu Ármannsdóttur horn- og altmugligtleikara.

 

 


Athugasemdir

Nýjast