Fyrstu lóðinni á Dysnesi úthlutað til Líforkuvers ehf

Tölvuteikning af því hvernig fyrsti fasi líforkuvers gæti litið út, unnin af finnska ráðgjafafyrirtæ…
Tölvuteikning af því hvernig fyrsti fasi líforkuvers gæti litið út, unnin af finnska ráðgjafafyrirtækinu GMM.

Fyrstu lóðinni á Dysnesi hefur verið úthlutað til Líforkuvers ehf. Fyrirhugað er að á henni byggist upp líforkuver en það verkefni á sér langan aðdraganda.  Kristín Helga Schiöth framkvæmdastjóri Líforkuvers segir vonir standi til þess að það megi raungerast á allra næstu árum. Um sé  að ræða mikilvæga innviðauppbyggingu þar sem unnið verður úr lífrænum straumum í lokuðum kerfum, svo úr verði verðmæti í formi orkugjafa og jarðvegsbætis. Byggt er á hugmyndafræði hringrásarhagkerfisins, þar sem ekkert fer til spillis. Horft er til nágrannalanda okkar eftir fyrirmyndum og notast verður við þekkta tækni.

Verkefnið sér langa sögu, en upphaflega var unnið að því innan Vistorku á Akureyri og síðan tóku Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar verkefnið upp á sína arma sem áhersluverkefni Sóknaráætlunar svæðisins. Félagið Líforkuver ehf. var þá stofnað um verkefnið í byrjun þessa árs, og að því standa fulltrúar stjórnvalda, sveitarfélaga og afurðastöðva. Í fyrsta fasa líforkuvers er horft til vinnslu á dýraleifum sem eiga sér engan góðan farveg hér á landi. Kristín Helga segir það algengan misskilning að brenna þurfi þetta efni og ekki megi flytja það  til vinnslu, en í nágrannalöndum okkar sé efnið unnið á öruggan hátt án brennslu, með mölun, þrýstisæfingu og fituskiljun. Með því eru möguleg smitefni óvirkjuð og afurðir eru í formi hráfitu sem áfram má vinna í lífdísil til nýtingar á farartæki annars vegar, og kjötmjöls sem nýta má sem brennsluefni í stóriðju eða sem orkugjafi í hátæknibrennslu.

 Horfa til framleiðslu lífgas

„Fyrir utan vinnslu á dýraleifum standa vonir til þess að á Dysnesi verði lífgasframleiðsla, þar sem áfram er horft til nágrannalanda okkar eftir fyrirmyndum, en lífgas (metan) er einn af þeim orkugjöfum sem við þurfum á að halda í orkuskiptunum sem við stöndum í. Horft er til samstarfs við landbúnað og bændur á svæðinu um nýtingu mykju til gasframleiðslu, þar sem afurðir eru í formi lífgass, koldíoxíðs og áburðar með hærra næringargildi og betra niðurbrot en mykjan í upphaflegu formi,“ segir hún.

Byggja upp græna innviði

„Með því að vinna úr ólíkum efnisstraumum á sama stað má ná fram hagkvæmni með samnýtingu tækjabúnaðar, starfsfólks og innviða, sem er mikilvægt í fámennu landi. Eins er mikilvægt að nýta þá sérþekkingu sem hefur byggst upp í landshlutanum, en samstarf ólíkra aðila hér á svæðinu er lykilatriði í verkefni sem þessu,“ segir Kristín Helga.

Meðal þeirra sem vinna nú að undirbúningi líforkuvers með einum eða öðrum hætti eru Eimur, SSNE, Vistorka, Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins, auk fjölda annarra innlendra og erlendra ráðgjafa. „Það er afar ánægjulegt að landeigendur sjái sömu tækifæri og við í því að byggja upp græna innviði á Dysnesi, sem munu verða mikilvægir atvinnulífi og uppbyggingu svæðisins, landbúnaði og matvælaframleiðslu og ekki síst fyrir losunarbókhald Íslands.“

Kristín Helga  Schiöth framkvæmdastjóri Líforkuvers 

Viðauki

Hafnasamlag Norðurlands keypti jörðina Gilsbakka árið 2010 og hluta af Syðri -Bakka árið 2015. Deiliskipulag fyrir svæðið var samþykkt árið 2015 og aðalskipulag sama ár. Fornleifaskráning var lokið árið 2020 og nú er verið að vinna að umhverfismati fyrir hafnarmannvirki á svæðinu.


Athugasemdir

Nýjast