Félagar úr Gönguleiðanefnd Ferðafélags Akureyrar tóku sig til nýverið og settu um 3,5 metra langa brú á Fremri Hlífá. . Þessi brú nýtist göngufólki á Glerárstífluhringnum og á Lambagötunni á Glerárdal.
Ingvar Teitsson formaður nefndarinnar segir forsöguna þá að lítil á, Fremri-Hlífá, komi niður úr suðausturhlíð Glerárdals nokkur hundruð metrum sunnan við bílastæðið í mynni Glerárdals og fellur hún í Glerá.
Önnum kafnir brúarsmiðir
„Þarna hefur ekki verið nein brú, aðeins vað á ánni. Við í gönguleiðanefnd Ferðafélags Akureyrar ákváðum að setja göngubrú á Fremri-Hlífá stutt ofan vaðsins. Akureyrarbær og RARIK útveguðu okkur efni í brúna,“ segir hann. „Þessi brú nýtist vel göngufólki sem vill ganga Lambagötuna fram í skálann Lamba á Glerárdal. Einnig er þetta á gönguleiðinni sem gengur undir nafninu Glerárstífluhringurinn.“