Fá listamannalaun í þrjá mánuði

Helga Kvam og Þórhildur Örvarsdóttir.
Helga Kvam og Þórhildur Örvarsdóttir.

Úthlutun listamannalauna árið 2018 liggja fyrir en alls bárust 852 umsóknir um starfslaun frá einstaklingum og hópum. Umsækjendur voru samtals 1.529 en úthlutun fengu 369 listamenn.

Tónlistarkonurnar Þórhildur Örvarsdóttir og Helga Kvam fengu útlutað þriggja mánaða starfslaun fyrir sameiginlegt verkefni sem þær vinna að og nefnist Hulda-Hver á sér fegra föðurland. „Við munum fara yfir feril hennar Huldu skáldkonu í tali og tónum en hún var algjör brautryðjandi fyrir aðrar konur og fyrirmynd enn í dag,“ segir Þórhildur í samtali við Vikudag.

„Þessu fylgir mikil rannsóknarvinna og verðum við í margskonar samstarfi, t.d. við Daníel Þorsteinsson tónskáld, Svein Yngva Egilsson íslenskufræðing og menningarmiðstöð Þingeyinga. Við munum flytja þetta víða um land, fyrstu tónleikarnir verða í Hömrum 19. júní og þetta verður partur af dagskrá í tilefni af 100 ára fullveldis afmæli Íslands.“

Mikil viðurkenning

Þórhildur segir mikla viðurkenningu að fá listamannalaun. „Þetta hefur auðvitað gríðarlega mikla þýðingu fyrir mig sem listamann því í þessu er fólgin ákveðin virðing, mér er treyst til að skapa list fyrir samfélagið okkar og í því felst ákveðin staðfesting á því að það sem maður hefur verið gera undanfarin ár hefur skipt máli.“

Í svipaðan streng tekur Helga Kvam. „Fyrir mér hefur það mikla þýðingu að hljóta listamannalaun; bæði sem viðurkenning á mínu starfi sem listamaður og það traust og virðing sem mér eru sýnd í að ég muni skapa menningarverðmæti fyrir samfélagið. Að vissu leyti kom mér á óvart að hljóta listamannalaun svona í fyrstu atrennu, ég hef aldrei sótt um áður. En ég trúi því að það verkefni sem við Þórhildur ætlum að vinna sé afar mikilvægt menningarverkefni,“ segir Helga Kvam.


Nýjast