Akureyri - Framkvæmdir við Torfunef

Landslagshönnun á nýju svæði við Torfunef er að ljúka en lóðir verða boðnar út á næstu vikum. Alls m…
Landslagshönnun á nýju svæði við Torfunef er að ljúka en lóðir verða boðnar út á næstu vikum. Alls mun 6 til 7 nýjar byggingar rísa á Torfunefi en mikill áhugi er fyrir þeim.

Framkvæmdir við stækkun Torfunefsbryggju ganga ágætlega um þessar mundir. Lóðir verða boðnar út á næstu vikum og gangi allt að óskum verður hafist handa við að reisa hús á svæðinu á næsta ári.

Pétur Ólafsson hafnarstjóri hjá Hafnasamlagi Norðurlands segir að verkinu hafi seinkað frá því sem áætlað var en sig var meira á svæðinu en búist var við. „Þetta er að komast á góðan stað núna og allt komið í jafnvægi,“ segir hann. Um þessar mundir er vinna við að steypa kantinn að hefjast.

Á nýja svæðinu við Torfunef eru nokkrar lóðir og á þeim verða 6 til 7 byggingar. Pétur segir að nú með vorinu eða í byrjun sumars verði þær boðnar út. „Við erum bjartsýn á að það verði mikil samkeppni um þessar lóðir, við finnum fyrir miklum áhuga fyrir þeim,“ segir hann. Landslagshönnun á svæðinu er að ljúka, „ og ég fullyrði að þegar öllum framkvæmdum lýkur verður þetta flottasta bryggjusvæði landsins.“ 


Athugasemdir

Nýjast