„Það er lang mikilvægast hvernig maður notar hestana“

Iðunn unir sér vel innan um hestana. Aðsend mynd
Iðunn unir sér vel innan um hestana. Aðsend mynd

Iðunn Bjarnadóttir frá Húsavík er hestakona af guðsnáð enda alin upp í Saltvík þar sem rekin er hestamennskutengd ferðaþjónusta. Fyrir skemmstu tók hún þátt í nýrri reiðkeppni sem skipulögð var af Landssambandi Hestamanna (LH). Keppnin fólst í fjögurra daga reið yfir Kjöl. Það er skemmst frá því að segja að Iðunn gerði sér lítið fyrir og sigraði keppnina. Vikublaðið tók þessa ungu hestakonu tali.

„Ég hef alist upp á hestbaki held ég að sé óhætt að segja. Þetta er mitt helsta áhugamál, hestarnir hafa alltaf veitt mér mikla ánægju,“ segir Iðunn og bætir við að hún sé reyndar ekki að stunda hestamennskuna mikið um þessar mundir vegna náms.

Iðunn

Iðunn Bjarnadóttir gerði sér lítið fyrir og sigraði fjögurra daga þolreið yfir Kjöl. Mynd/aðsend.

 

„Ég er fyrir sunnan í háskólanámi og er að æfa blak á fullu. Ég er í Háskólanum í Reykjavík að læra lögfræði en var í HÍ í fyrra í ferðamála og viðskiptafræði. Mig langaði til að breyta aðeins til,“ segir hún.

„Ég tók þátt í tilraunaverkefni hjá LH sem kallast þolreið. Þetta var fjögurra daga reiðkeppni yfir Kjöl. Það voru fjórir knapar sem tóku þátt, allt svona hestaferðafyrirtæki,“ segir hún en fjölskylda Iðunnar rekur einmitt Saltvík hestaferðir, rétt sunnan Húsavíkur.

„Við vorum með þrjá hesta hver, þannig gátum við riðið tveimur á dag á meðan einn hvíldist. Þetta snýst um hver er skynsamastur og svo auðvitað fljótastur yfir. Það er lang mikilvægast hvernig maður notar hestana, hvernig maður stýrir hraðanum til að ofgera ekki hrossunum,“ segir Iðunn og bætir við að dýralæknir hafi skoðað hrossin eftir hverja reið, þar sem hjartslátttur er skoðaður og athugað hvort þau hafi fengið áverka. „Það er mikilvægt að þetta sé allt í góðu lagi.“

„Iðunn kom sá og sigraði en hún fékk send hross frá föður sínum, Bjarna Páli Vilhjálmssyni sem var einmitt í tveggja mánaða hestaferð þvert yfir Ísland. „Pabbi var á Vestfjörðum með hestana mína og lét skutla þeim í Skagafjörð þar sem þeir hvíldust í viku áður en ég notaði þá. Ég tók mér bara fjögurra daga pásu úr skólanum og fór norður í Skagafjörð og reið yfir kjöl,“ segir Iðunn sem einnig keppti talsvert í hringvallargreinum þegar hún var yngri. „Það gekk alveg ágætlega á köflum. Síðan bara breyttist það og ég fór að gera annað,“ segir Iðunn að lokum.


Athugasemdir

Nýjast