Mikil ánægja með alþjóðlegt skíðagöngumót í Hlíðarfjalli

Hart var barist í karla og kvennaflokki og voru Norðmenn sigursælir á mótinu. mynd/aðsend
Hart var barist í karla og kvennaflokki og voru Norðmenn sigursælir á mótinu. mynd/aðsend

Margt af öflugasta skíðagöngufólki Norðurlanda var mætt til keppni um helgina í Hlíðarfjalli á  alþjóðlega skíðamótinu Scandinavian Cup.

Á laugardag var keppt í sprettgöngu með frjálsri aðferð í flokkum karla og kvenna. Konur gengu 1,2 km og karlar 1,4 km með frjálsri aðferð (skauta aðferð). 

Á sunnudag var keppt í 15 km göngu karla og kvenna með hóp ræsingu.

Í kvennaflokki var hörð barátta á milli Marte Skaanes og Karoline Simpson-Larsen en þær koma báðar frá Noregi. Karoline leiddi alla þrjá hringina og þær stöllur hristu allar aðrar af sér. Í síðustu brekkunni þegar komið var inn á marksvæðið var það þó Marte sem átti næga orku eftir til að vinna Karoline nokkuð örugglega þegar komið var yfir marklínuna.

Í karlaflokki var gríðarlega hörð barátta og var stór hópur sem fylgdist að alla hringina þrjá og réðust úrslit ekki fyrr en komið var á marksvæðið og aðeins um 500 metrar eftir. Sigurvegari dagsins var Jan Thomas Jensson NOR, annar var Magne Haga NOR og í þriðja sæti Ivar Tildheim Andersen NOR.

Norðmenn voru gríðarlega öflugir á mótinu um helgina. Sem dæmi þá voru þeir í 11 efstu sætunum í karlaflokki, en í kvennaflokki voru úrslitin dreifðari á milli þjóða.

Kristrún Guðnadóttir í Skíðafélaginu Ulli var fremst Íslenskra kvenna í 21. sæti, en í karlaflokki var það hinn öflugi Snorri Einarsson sem var í 22. sæti.

Mótið í Hlíðarfjalli var loka mót í Scandinavian Cup mótaröðinni og voru veitt verðlaun fyrir samanlagðan árangur vetrarins í dagslok. Það var hin gríðarlega öfluga Marte Skaanes Noregi sem bar sigur úr samanlagðri keppninni og öðlast með því þátttökurétt í heimasbikar mótaröðinni á næsta ári. Önnur í mótaröðinni var Silja Oeyre Slind NOR og í þriðja sæti var Karoline Simpson-Larsen einnig frá Noregi.

Þetta er í fyrsta skipti sem keppni af þessari stærðargráðu er haldin á Íslandi og létu keppendur vel af aðstæðum og mótahaldi. Auk áhorfenda í Hlíðarfjalli fylgdust um 2000 manns með keppninni í gegnum streymi þar sem keppninni var gerð góð skil.


Athugasemdir

Nýjast