4. sept - 11. sept - Tbl 36
Dominique Randle landsliðskona frá Filippseyjum til Þór/KA
Þór/KA hefur samið við miðvörðinn Dominique Randle um að leika með liðinu á komandi keppnistímabili.
Dominique er fædd 1994 og er þessa dagana með landsliði Filippseyja, ásamt Tahnai Annis, sem einnig hefur samið við Þór/KA eins sagt var frá fyrir nokkru, á Spáni þar sem liðið tekur þátt í Pinatar Cup. Filippseyjar eru þar í riðli með Íslandi og þessi lið mætast einmitt í lokaleik riðilsins í kvöld kl. 19:30. Dominique spilaði með liði UCLA á háskólaárunum, en hún útskrifaðist þaðan 2017.
„Dominique er reynslumikill varnarmaður sem kemur til með að styrkja okkur mikið,“ segir Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA. „Það hefur áður komið fram að við erum að leita eftir reynslu og aldri við styrkingu á liðinu fyrir tímabilið. Dominique færir okkur þessa þætti sem og gæði til að verjast og halda í boltann. Hún og Tahnai þekkjast vel úr landsliði Filippseyja og eiga sinn þátt í því að liðið er að fara í fyrsta sinn í lokakeppni HM.“
Frá þessu var fyrst sagt á heimasíðu Þórs
Athugasemdir