Arna Eiríksdóttir í Þór/KA

Arna Eiríksdóttir. Mynd/thorka.is
Arna Eiríksdóttir. Mynd/thorka.is

Þór/KA hefur gert lánssamning við Örnu Eiríksdóttur og Val um að hún leiki með Þór/KA í sumar. Greint er frá þessu á vef félagsins

Arna Eiríksdóttir verður tvítug á árinu og á að baki nokkur ár í meistaraflokki og komin með talsverða reynslu á þeim vettvangi. Hún var í Víkingi í Reykjavík í yngri flokkum, spilaði síðan með meistaraflokksliði HK/Víkings í úrvalsdeildinni 2018 og 2019, en síðan með Val frá 2020.

Hún á að baki 60 meistaraflokksleiki með þessum félögum og hefur skorað í þeim fimm mörk. Þá á hún að baki fjóra Evrópuleiki með Val, 16 leiki í Reykjavíkurmótinu og samtals 24 leiki með U16, U17 og U19 landsliðum Íslands.

„Arna er sterkur leikmaður og spilar sem miðvörður, en hún kemur inn í hópinn hjá Þór/KA í stað Brooke Lampe, bandaríska miðvarðarins sem félagið samdi við um áramótin. Brooke hefur því miður þurft frá að hverfa af persónulegum ástæðum og var samningi hennar slitið að hennar ósk. Þór/KA þakkar Brooke fyrir veru hennar hjá félaginu og býður Örnu Eiríksdóttur velkomna í okkar öfluga hóp,“ segir á vef Þórs/KA.

 


Athugasemdir

Nýjast