Fréttir

Einbúakaffi í Akureyrarkirkju í fyrsta sinn fimmtudaginn 15 febrúar n.k.

Sr. Hildur Eir Bolladóttir segir frá þvi í færslu á Facebook nú í morgun að opið hús verði i Safnaðarheimilinu fyrir alla sem búa einir en lagni til þess að hitta  annað fólk og svala þannig  félagslegri þörf sinni.  Þarna verður hægt að grípa í spil, rifja upp mannganginn við taflborðið, vinna hannyrðir, greina ljóð, eða ræða um bækur, trúmál nú eða blessuð þjóðmálin og liklega skipulagssmál innanbæjar  eða bara segja skemmtilegar sögur. 

Drekka gott kaffi og hafa kleinu með því.

Sr. Hildur Eir segir  ennfremur að fyrirhugað sé að ,,Fá gesti í heimsókn sem kenna slökun, eða prjónaskap eða heimsspeki en umfram allt er þetta hugsað fyrir alla sem búa einir en hafa gaman af fólki á öllum aldri af öllum kynjum í breidd hinnar guðdómlegur sköpunar."

,,Prestarnir munu ekki láta sig vanta i gott kaffið sem ísbrjótar samskiptanna, leiða spjalllið hér og þar um salinn og njóta þess að vera með," eins og segir i tilkynningu.

Lesa meira

Götuhornið - Leigubílstjóri tuðar

Orðið gjafakvóti er sennilega eitt mesta öfugmæli íslenskrar tungu.  Þó ég sé ekki gamall hef ég þó verið leigubílsstjóri í tuttugu og fimm ár og man ég lengra aftur en það.  Ég man þá tíma þegar útgerðir máttu veiða eins mikinn fisk og þeim þóknaðist og höfðu skip til að veiða. Allir reyndu að kaupa mörg og stór skip til að geta keppst við að veiða sem mest af heildaraflanum á sem stystum tíma. Allt snerist um að veiða fisk, henda honum upp á bryggju sem fyrst og fara út aftur.

Þetta var auðvitað ekki sjálfbært. Við veiddum of mikið og nýttum það illa. Fiskistofnarnir voru í hættu og þar með efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar. Þá var ákveðið að skerða rétt útgerða til að veiða fisk. Það var gert með kerfi aflahlutdeilda.  Með öðrum orðum voru settar reglur um það að útgerð mátti ekki lengur veiða það magn leyfðs heildarafla sem hún vildi. Nú mátti hún bara veiða tiltekið hlutfall þess heildarafla sem ákveðinn var árlega. Með þessu var tekinn af mönnum réttur til veiða.  Frelsi útgerðanna var skert og þau máttu veiða minna af fiski en áður.  Fjölmargar þeirra þoldu þetta ekki og seldu skip og kvóta til þeirra sem gátu betur lagað sig að kvótakerfinu.

Það er óskiljanlegt hvernig kynslóðirnar sem ekki lifðu þessa tíma geta nú haldið því fram að þeim útgerðum sem þurftu að þola þessar skerðingar hafi verið gefið eitthvað. Ég held að mér þætti það ekki gjöf ef ég mætti á næsta sumri bara tína tiltekið magn af bláberjum en ekki það magn sem ég vil eins og ég hef gert hingað til. 

En nú eru annars bjartir tímar hjá íslenskri þjóð og allir geta fengið það sem þeir vilja. Þeir geta meira að segja valið sér kyn og búið sér til kyn ef þeim lýst ekki á þau kyn sem er í boði. Læknavísindin eiga erfitt með að fylgja þessum kynvísindum eftir því að enn eru aðeins tvö kyn í boði þegar maður vill fara í kynleiðréttingu. 

Það eru þrjár ríkisstjórnir í landinu. Hver og ein fer sínu fram og þær verja hver aðra falli þó einingin sé horfin. Ein þeirra virðist þó hafa flúið land því að ekkert hefur spurst til Framsóknarflokksins vikum saman. Það er reyndar bættur skaðinn eftir að þrjóturinn hann Sigurður Ingi lagði landið í rúst með því að leyfa bara hverjum sem er að keyra leigubíl. Það var mikið ógæfuspor. Hingað til hafa leigubílstjórar verið salt jarðar, heiðursmenn rómaðir fyrir kurteisi og góða siði.  En nú hefur hvaða kújóna og galfír sem verða vill verið hleypt inn í kerfið. Það mun hefna sín eins og allar aðrar tilslakanir.

Annars var ég á þorrablóti í Garðabæ um helgina. Þar var yndislegt skemmtiatriði í boði Lögmannafélagsins. Málin voru svo gerð upp eftir ball eins og tíðkaðist í sveitinni í gamla daga. Ég sá mynd af Brynjari í vikunni og hann hlýtur að hafa fengið heiftarlega á kjaftinn.

Það er loksins kominn verðmiði á Hofsbót 1.  Lágmarkið er 263 milljónir og geri aðrir betur.  Svo voru menn að halda því fram að BSO húsið sé einskis virði. Það er ómetanlegt og allir vita að hvergi er hægt að stíga inn í leigubíl en akkúrat þarna.

 

 

 

Lesa meira

Námsbraut í bifvélavirkjun fær góða gjöf

Fulltrúar fyrirtækjanna, Johan Rönning /Sindra á Akureyri og Kraftbíla í Hörgársveit komu færandi hendi í Verkmenntaskólann á Akureyri og afhentu námsbraut í bifvélavirkjun að gjöf verkfæri í öllum regnbogans litum fyrir Hönd fyrirtækjanna. Um var að ræða tvo verkfæraskápa fulla af verkfærum auk annars að því er fram kemur á vefsíðu VMA.

Ásgeir V. Bragason, kennari í bifvélavirkjun, segir að skólann hafi skort mjög verkfæri til þess að geta kennt verklega kennslu þrettán nemenda, sem nú stunda nám í bifvélavirkjun, og því sé þessi gjöf eins og himnasending. Hann segist nánast vera orðlaus yfir þessum rausnarskap því þegar hann leitaði eftir stuðningi þessara fyrirtækja við námsbrautina hafi hann mögulega getað búist við að þau gætu séð sér fært að styðja hana um tíu prósent af því sem síðan hafi verið raunin.

Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari færði fyrirtækjunum einnig þakkir fyrir höfðinglega gjöf sem hún sagði vera gott dæmi um afar mikilvægt samstarf atvinnulífs og skóla. Það væri ómetanlegt fyrir VMA að eiga slíka bakhjarla sem sýni skólanum velvild og stuðning. Hún bætti við að þetta væri fyrsta afmælisgjöfin sem skólinn fengi á 40 ára afmælinu og hún væri sannarlega ekki af verri endanum.

Lesa meira

Snúum bökum saman

Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi Eystra standa fyrir áhugaverðu málþingi í Hofi á föstudaginn undir yfirskriftinni Út um borg og bý: Hverju skilar samstarf nágranna og hvað prýðir gott sveitarfélag?

Jarðhræringar á Reykjanesi hafa vissulega vakið okkur til umhugsunar um byggðaþróun, einkum í ljósi þess að í dag búa tæp 82% þjóðarinnar á svæðinu Hvítá til Hvítá og að öllu óbreyttu verður áframhaldandi samþjöppun á því svæði. Er þetta virkilega það sem við viljum sjá, að allir íbúar landsins þjappi sér á eitt landsvæði? Eða viljum við öfluga byggðir um allt land sem byggja á fjölbreyttum mannauði og auðlindum?

Á málþinginu verður tekin umræða um vinnu við borgarstefnu en það er kominn tími til að Akureyri hljóti formlega viðurkenningu sem hin borgin og að stjórnvöld geti út frá því unnið að eflingu hennar sem mikilvægur valkostur við höfuðborgarsvæðið. Eyjafjarðarsvæðið hefur alla burði til þess með sameiginlegu átaki. Við eflum ekki sveitir landsins og minni byggðakjarna nema með góðri þjónustu og innviðum í nærumhverfi. Til að halda í unga fólkið okkar og laða að nýja íbúa og spennandi atvinnutækifæri þurfa ákveðnir grunnstoðir að vera í lagi: Menntun, samgöngur, næg orka, góðar nettengingar, beint millilandaflug, heilbrigðisþjónusta og þá sér í lagi þjónusta sérfræðilækna, fjölbreytt húsnæði og afþreying.

Fyrst og fremst eiga sveitarfélögin á svæðinu að snúa bökum saman og vinna saman að eflingu svæðisins í góðu samtali.

 

 

Lesa meira

Frábært færi í Kjarnaskógi

Það er óhætt að fullyrða að færið í Kjarnaskógi og að Hömrum fyrir skíðagöngufólk er frábært eftir  snjókomu í gær og nótt sem leið. Í færslu  sem  þau hjá Skógræktarfélagi Eyjafjarðar settu inn á Facebook í morgun segir ,,Helstu gönguleiðir í Kjarna og á Hömrum nýtroðnar, Naustaborgum öllum lokið innan stundar 🙂 Hiti -4, yndisveður og færi !"

Um að gera fyrir göngufólk að skella sér einn hring eða tvo eftir vinnu í dag,.

Lesa meira

SAk - Tölulegar staðreyndir fyrir janúar 24

  • Fjöldi dvalardaga í janúar var 2.248, sem er rúmlega 4% meira en árið 2023 og er meðallega á deild 4,2 dagar.

  • Flestir sjúklinganna eru lagðir inn í bráðainnlögn en þær eru um 75% af heildarinnlögnum.

  • Árið byrjar aðeins rólegar m.t.t. rúmanýtingar samanborið við janúar árið 2023 en nú er rúmanýting á lyflækninga- og skurðlækningadeild um 89% samanborið við 100% í fyrra.

  • Í lok janúar voru 19% legurýma á Kristnesspítala, lyflækninga- og skurðlækningadeild upptekin af sjúklingum sem eru með gilt færni- og heilsumat eða með slíkt í vinnslu.

  • Rúmlega 2.100 einstaklingar hafa fengið þjónustu á göngudeild og þar af 248 vegna krabbameinslyfjagjafar, samanborið við 203 lyfjagjafir í janúar 2023.

  • Á bráðamóttöku og göngudeild bráðamóttöku er fjöldi samskipta tæplega 1.500 samanborið við 1.377 á sama tíma í fyrra og því aukningin milli ára tæplega 9%. Biðtími eftir því að hitta lækni á bráðamóttöku er nú um 41 mínútur sem nálægt viðmiðum okkar um 40 mínútna bið eftir lækni.

  • Skurðaðgerðir í janúar voru 251 sem er ívíð meira en í fyrra en þá var ekki hægt að vera með fulla starfsemi vegna álags og skorts á starfsfólki. Nú eru um 24% aðgerða bráðaaðgerðir og gerviliðaaðgerðir voru 35.

  • Fjöldi myndgreiningarannsókna (án brjóstamynda) var um 3.482 og gerir það að meðaltali um 112 rannsóknir á dag.

  • Aukin fæðingartíðni var í janúar en þá fæddust 34 börn samanborið við 27 börn í janúar 2023.

  • Árið byrjar sambærilega og í fyrra með komum ósjúkratryggðra á bráðamóttöku en þó hafa færri verið innlagðir en í janúar 2023.

Lesa meira

Sparisjóður Höfðhverfinga og KA/Þór undirrita samstarfssamning

Þetta er eitt af verkefnum á sviði íþrótta- og tómstundamála sem Sparisjóðurinn styrkir í nærumhverfi sínu en hlutverk Sparisjóðsins er að standa vörð um hagsmuni landsmanna, styrkja innviði samfélagsins og styðja við félags- og atvinnulíf í heimabyggð.

,,Við erum afskaplega ánægð með að ganga til samstarfs við Sparisjóðinn og hlökkum til samstarfsins. KA/Þór er að ganga í gegnum endurnýjunarferli og eru mörg krefjandi verkefni framundan og skiptir þá öflugur bakhjarlahópur miklu máli ", sagði Stefán Guðnason stjórnarformaður KA/Þór

„Samstarf við kvennalið KA/Þórs smellpassar við sjálfbærnistefnu Sparisjóðsins en hluti af henni tekur á samfélagslegri ábyrgð þar sem við styðjum við íþrótta- og félagsstarf í nærumhverfi okkar. Við óskum KA/Þór góðs gengis í þeim verkefnum sem eru framundan,“ segir Jón Ingvi Árnason sparisjóðsstjóri Sparisjóðs Höfðhverfinga.

Á meðfylgjandi mynd má sjá Jón Ingva Árnason sparisjóðsstjóra Sparisjóðs Höfðhverfinga og Mörthu Hermannsdóttur handboltakempu og fulltrúa KA/Þórs undirrita samstarfssamninginn.

 

Lesa meira

Snjóflóð við munna Ólafsfjarðargangna

Vetur konungur minnti á sig í dag og um kl. 15:30fengu lögreglumenn á Tröllaskaga tilkynningu um að snjóflóð hefði fallið á veginn um Ólafsfjarðarmúla, skammt sunnan við munna Ólafsfjarðarganganna, Dalvíkurmegin. Tilkynningunni fylgdi að a.m.k. einn ökumaður væri þar í vandræðum þar sem hann hefði ekið inn í nýfallið flóðið.

Veginum var strax lokað, beggja megin, og héldu lögreglumenn úr Fjallabyggð manninum til aðstoðar. Skömmu síðar bárust frekari upplýsingar að ökumenn væru einnig í vandræðum Dalvíkurmegin við flóðið. Í kjölfarið voru björgunarsveitir á Dalvík og á Ólafsfirði kallaðar út.

Þrátt fyrir slæmt veður á svæðinu gekk vel að aðstoða þá ökumenn sem lentu þarna í hrakningum og voru þeir aðstoðaðir til baka úr sínum aðstæðum, annarsvegar til Ólafsfjarðar og hins vegar til Dalvíkur. Ein bifreið var skilin eftir á vettvangi. Engin slasaðist í verkefni þessu. Verkefni þessu lauk um kl. 18:30

Vegurinn um Ólafsfjarðarmúla er lokaður sem og Siglufjarðarvegur vestan Siglufjarðar að Ketilási í Fljótum. 

Hvetjum við alla sem hyggja á ferðir á Norðurlandi, sem og á öðrum landshlutum, að fylgjast vel með á færðinni hverju sinni, s.s. á síðu Vegagerðarinnar, www.umferdin.is

 

 

Lesa meira

Ný kjarasamningur sjómanna - ,,Ég er sáttur” segir Trausti Jörundarsson formaður SjóEy

,, 

,, Já ég er sáttur með þennan samning og þær breytingar sem gerðar voru. ”

Hverjar eru helstu breytingarnar?  

Í nýja samningnum er binditími samningsins styttur verulega eða úr 10 árum í 5 ár. Það felur í sér að sjómenn geta sagt samningnum upp eftir 5 ár og svo aftur eftir 7 ár. Þetta er gundvallarbreyting á samningnum.

Önnur mikilvæg breyting er að grein 1.39 í samningnum hefur verið breytt. Tekið er út að samningsbundinn gerðardómur leysi úr ágreiningi sem komið getur upp milli aðila vegna ákvæðisins. Í staðinn skipa samningsaðilar hlutlausa óvinhalla nefnd sem hefur það hlutverk.

Þá má finna mikilvæga breytingu um ísun yfir kör sem fara í gáma til sölu erlendis og verður sú ísun ekki á hendi skipverja nema í neyðartilvikum, samkvæmt nýjum samningi. Útgerðarmenn eiga að semja við löndunargengi á staðnum um að ísa yfir körin sem fara í gámana, eigi skipverjar frí við löndun skv. kjarasamningi. Ef sjómenn sjá um yfirísun sjálfir í neyðartilfellum fár þeir greidda yfirvinnu fyrir. Þetta atriði er mikilvægt fyrir sjómenn í Eyjafirði þar sem þessi vinna hefur verið á þeirra herðum lengi.

Sjómenn fá 400.000 króna eingreiðslu frá útgerðarfyrirtækjum ef samningur verður samþykktur. Þetta er viðbót frá fyrri samningi sem skiptir máli. Kemur til greiðslu 1. mars 2024.

Desemberuppbót kemur inn í samninginn þann 15. desember 2028. Miðað verður við 160 lögskráningardaga á ári.

Þetta eru helstu breytingarnar á samningnum” sagði Trausti Jörundarsson formaður Sjómannafélags Eyjafjarðar. 

Lesa meira

Nýr kjarasamningur á milli Sjómannasambands Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi undirritaður

Nýr kjarasamningur á milli Sjómannasambands Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) var undirritaður í dag í húsnæði Ríkissáttasemjara. Samningar á milli aðila hafa verið lausir frá árinu 2019. Árið 2023 var nýr kjarasamningur felldur í atkvæðagreiðslu sjómanna.
Samningaviðræður um nýjan samning hafa staðið yfir síðustu mánuði. Í þeim viðræðum var lögð mikil áhersla á að taka tillit til þeirra athugasemda og gagnrýni sem fram kom í umræðum um samninginn á síðasta ári og hefur það gengið eftir í helstu atriðum.


Nú að lokinni undirritun verða samningarnir kynntir ítarlega fyrir félagsmönnum og að því loknu hefst rafræn atkvæðagreiðsla 12. febrúar kl. 12:00 og lýkur föstudaginn 16. febrúar kl. 15:00

Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambandsins:
„Við erum núna í þeirri stöðu að vera með kjarasamning í höndunum sem við höfum undirritað og er að fara í atkvæðagreiðslu hjá sjómönnum innan okkar félaga. Að mínu mati er þetta góður samningur og við höfum náð að semja um flest þau atriði sem gagnrýnd voru í samningnum sem var felldur í fyrra. Núna eru sjómenn í góðri stöðu til að samþykkja samning sem verður með binditíma í 5 ár og ég vonast eftir því að samningurinn verði samþykktur“.

Breytingar á binditíma, uppsagnarákvæði og fleiri breytingar
Í nýja samningnum er binditími samningsins styttur verulega eða úr 10 árum í 5 ár. Það felur í sér að sjómenn geta sagt samningnum upp eftir 5 ár og svo aftur eftir 7 ár. Þetta er gundvallarbreyting á samningnum.

Önnur mikilvæg breyting er að grein 1.39 í samningnum hefur verið breytt. Tekið er út að samningsbundinn gerðardómur leysi úr ágreiningi sem komið getur upp milli aðila vegna ákvæðisins. Í staðinn skipa samningsaðilar hlutlausa óvinhalla nefnd sem hefur það hlutverk. Ef ekki næst samkomulag um nefndarmenn mun Ríkissáttasemjari koma að skipan nefndarmanna.

Þá má finna mikilvæga breytingu um ísun yfir kör sem fara í gáma til sölu erlendis og verður sú ísun ekki á hendi skipverja nema í neyðartilvikum, samkvæmt nýjum samningi. Útgerðarmenn eiga að semja við löndunargengi á staðnum um að ísa yfir körin sem fara í gámana, eigi skipverjar frí við löndun skv. kjarasamningi. Ef sjómenn sjá um yfirísun sjálfir í neyðartilfellum fár þeir greidda yfirvinnu fyrir.

Í samningunum nú er að finna sambærilegt ákvæði og var í síðasta samningi um að framlag í lífeyrissjóð geti hækkað úr 12,0% í 15,5% en sjómenn hafa þó val um þetta atriði.

Sjómenn fá 400.000 króna eingreiðslu frá útgerðarfyrirtækjum ef samningur verður samþykktur. Þetta er viðbót frá fyrri samningi sem skiptir máli. Kemur til greiðslu 1. mars 2024.

Desemberuppbót kemur inn í samninginn þann 15. desember 2028. Miðað verður við 160 lögskráningardaga á ári.
Nánari upplýsingar um kjarasamningana má finna á vefsvæði Sjómannasambandsins og facebooksíðu sambandsins www.ssi.is og https://www.facebook.com/sjomannasamband

Lesa meira