Fréttir
12.03.2021
Nokkrir Húsvíkingar tóku sig til á dögunum undir forystu Örlygs Hnefils Örlygssonar, hótelstjóra og Eurovision-aðdáanda og gerðu myndband til að skora á akademíuna amerísku til að velja lagið af skammlistanum. Myndbandið sem var frumflutt á vef Fréttablaðsins er skrifað og framleitt af þeim Örlygi, Leonardo Piccione og Rafnari Orra Gunnarssyni. Jenný Lára Arnórsdóttir og Kristín Lea Sigríðardóttir leikstýrðu og sáu um leikaraval.
Lesa meira
Fréttir
12.03.2021
Litla Kompaníið í samstarfi við Leikfélag Akureyrar frumsýndi í gærkvöld einleikinn „Óvænt uppákoma“ eftir Sögu Jónsdóttur sem einnig flytur verkið og Sunna Borg flytur „Bergljótu” sem er ljóðabálkur eftir Björnstjerne Björnsson við píanóundirleik Alexanders Edelstein. Næstu sýningar fara fram 13.-19. og 20. mars. Saga og Sunna hafa unnið mikið saman undanfarin ár og láta engan bilbug á sér finna. Sunna fæddist í Reykjavík og átti heima þar fyrstu ár ævi sinnar en fluttu til Akureyrar árið 1979 og hefur verið hér síðan. Hún útskrifaðist frá leiklistarskóla Þjóðleikhússins árið 1970 og hélt því upp á 50 ára leiklistarafmælið síðasta sumar. Vikublaðið forvitnaðist um líf og störf Sunnu.
Lesa meira
Fréttir
12.03.2021
Talsvert hefur verið rætt og ritað um mögulega þéttingu byggðar á Eyrinni og í Tónatröð að undanförnu og sitt sýnist hverjum. Leitað var álits bæjarfulltrúa í síðasta Vikublaði en nú er tímabært að viðra skoðanir Sigurðar Sigurðssonar, framkvæmdastjóra SS Byggis.
„Margir spyrja sig hvers vegna verið sé að þétta byggð? Er ekki til nægilegt landrými? Svarið við þeim spurningum er að fjárhagslega er staða margra sveitarfélaga með þeim hætti að ekki kemur annað til greina en að þétta byggð og gera það myndarlega. Það á svo sannarlega við um Akureyri og það vita allir sem vilja vita,“ segir Sigurður. Hann bendir á að uppbygging og rekstur innviða sveitarfélaga sé stór þáttur í útgjöldum þeirra. „Út frá samgöngu- og umhverfissjónarmiðum verðum við sem samfélag líka að taka ábyrga afstöðu til skipulagsmála, nýta landgæði og stuðla að þéttingu byggðar. Þétting byggðar gefur tækifæri til að skapa blómlegt mannlíf í og við miðkjarna Akureyrar sem gerir sveitarfélagið að samkeppnishæfari og eftirsóknarverðari búsetukosti.“
Sigurður segir ýmsar rangfærslur á sveimi varðandi þessa tvo byggingarkosti, Eyrina og Tónatröð. „Í hvorugu tilvikinu kom frumkvæðið frá SS Byggi. Á Eyrinni breytti Akureyrarbær rammaskipulagi og í tilviki Tónatraðar kom frumkvæðið frá skipulagsyfirvöldum bæjarins. Þar á bæ var bent á þessar lóðir vegna þess að þær höfðu verið lausar í áraraðir. SS Byggir á lóðir og fasteignir á Eyrinni. Akureyrarbær breytti fyrir nokkrum árum skipulaginu þarna, án vitundar okkar, þannig að þar skal nú rísa blönduð byggð; þjónustu, iðnaðar og íbúabyggðar. Fyrirtækinu stendur því ekki til boða að endurbyggja iðnaðarhúsnæði á svæðinu þar sem það uppfyllir ekki kröfur rammaskipulags sveitarfélagsins. Það er heldur ekki hægt, viðskiptalega séð, að byggja þriggja til fjögurra hæða hús á svæðinu þar sem kostnaður við uppkaup fasteigna, dýr grundun og þröng deiliskipulagsskilyrði kollvarpa fjárhagslegum grundvelli slíks verkefnis.
Þess vegna gera hugmyndir SS Byggis ráð fyrir að byggja þurfi hærra en núgildandi rammaskipulag gerir ráð fyrir. En ég ítreka að það skipulag sem gerir ráð fyrir fjölbýlishúsum neðan við Hjalteyrargötu er á engan hátt að frumkvæði SS Byggis,“ segir hann.
Lesa meira
Fréttir
09.03.2021
Völsungur tryggði sér á laugardag sæti í undanúrslitum Kjöríssbikars kvenna í blaki með sigri í dramatískum leik á móti Álftanesi.
Heimastúlkur byrjuðu af krafti og unnu fyrstu tvær hrinurnar 26-24. Álftanes unnu svo næstu tvær hrinur (12-25 og 20-25). Í oddahrinunni var jafnt á nær öllum tölum en í stöðunni 13-13 átti Álftanes tvö misheppnuð smöss í röð og þar með tryggði Völsungur sér verðskuldaðan sigur í leiknum, 3-2!
Lesa meira
Fréttir
06.03.2021
Húsvíkingurinn Snæbjörn Ragnarsson hefur getið sér góðan orðstír sem bassaleikari og textahöfundur í þungarokkshljómsveitinni Skálmöld og meðal annars unnið íslensku tónlistarverðlaunin fyrir textasmíðar sínar. Meðlimir Skálmaldar eru nú farnir að hugsa um framhaldið eftir að hafa tekið sér verðskuldað hlé í eitt ár. Vikublaðið ræddi við Snæbjörn á dögunum um hið stórundarlega ár 2020.
„Við lýstum því yfir um mitt ár 2019 að við ætluðum að taka okkur frí allt árið 2020. Við héldum svo lokatónleika í bili í lok þess árs. Við kynntum þetta þannig að við værum að taka okkur hlé þar til við nenntum að gera eitthvað aftur.“ Þá segir Snæbjörn að það hafi verið samhljómur allra meðlima hljómsveitarinnar um að taka a.m.k. allt síðasta ár í frí og taka svo stöðuna í byrjun árs 2021. „Svo kom bara Covid,“ skýtur hann inn í og fer ekki leynt með það að faraldurinn hafi sparað hljómsveitinni æði mikið vesen. „Það þarf nefnilega að skipuleggja allt svona tónleikahald svo langt fram í tímann, hljómsveitir sem við höfum verið að túra með hafa lent í alls konar vandræðum vegna skipulagðra tónleikaferða sem hefur þurft að fresta eða aflýsa vegna faraldursins.“
Snæbjörn segir frá því að honum hafi þótt skondið hvernig fjölmiðlar slógu því upp að Skálmöld væri hætt þegar bandið tilkynnti fríárið og aðdáendur sveitarinnar fylltust skelfingu. „Við gáfum það aldrei út. Við sögðumst bara ætla að taka smá slaka,“ segir hann og bætir við að hljómsveitin sé nú að vakna út dvalanum.
„Við vorum búnir að játa okkur á Evróputúr í mars sem nú er búið að fresta fram í nóvember – desember, en það verður svo bara að koma í ljós hvort það gengur upp,“ segir Snæbjörn og lætur ekki óvissuna koma sér út jafnvægi en segir pásuna hafa gert gæfu muninn fyrir mannskapinn. Nú séu allir komnir í stuð til að fara gera eitthvað aftur.
Snæbjörn og Baldur bróðir hans eru báðir meðlimir Skálmaldar og spila einnig með Ljótu Hálfvitunum en þaðan kemur hugmyndin um að taka góða pásu og hætta alveg að hugsa um allt sem viðkemur hljómsveitinni. „Þegar Ljótu hálfvitarnir voru búnir að spila alveg gjörsamlega í drep fyrstu 2-3 árin þá vorum við alveg að því komnir að drepa hvorn annan,“ segir Snæbjörn léttur í bragði og bætir við að þá hafi það einmitt verið lagt til að taka góða pásu til að hlaða rafhlöðurnar. „Þá tókum við þessa ákvörðun að vera ekkert að hægja bara á heldur drepa alveg á vélinni og hætta að hugsa um þetta,“ útskýrir hann og bætir við að það hafi verið í þessari pásu að þeir bræður stofnuðu Skálmöld. „Eftir að við tókum pásu í Ljótu Hálfvitunum hefur aldrei verið jafn gaman að spila, og ég held að við séum að fara upplifa það sama í Skálmöld.“ Ljótu hálfvitarnir eru í fullu fjöri og koma meira að segja norður yfir heiðar um páskana og halda tvenna tónleika á Græna Hattinum.
Lesa meira
Fréttir
06.03.2021
„Viðtökurnar hafa verið alveg ótrúlegar og virkilega gaman að geta boðið upp á svona gleðibombu eftir allt sem hefur gengið á undanfarna mánuði. Við erum líka svo glöð að sjá hvað fólk er duglegt að mæta í leikhúsið eftir þennan langa menningardvala,“ segir Birna Pétursdóttir leikkona. Hún ásamt Vilhjálmi B. Bragason og Árna Beinteini Árnasyni standa að gamanleiknum Fullorðin sem Leikfélag Akureyrar sýnir um þessar mundir í Menningarhúsinu Hofi. Sýningin hefur slegið í gegn og fengið fína dóma. Vegna eftirspurnar hefur þurft að bæta við sýningum fram í apríl og verður haldið áfram að bæta við eftir þörfum. Leikarar sýningarinnar þau Birna, Árni og Vilhjálmur eru einnig höfundar verksins þar sem þau fjalla á sprenghlægilegan hátt um grátbroslegar hliðar þess að fullorðnast, pressuna um að vera með allt á hreinu, eiga fasteign, vera með menntun, góða vinnu, eiga maka og börn - því annars er lífið misheppnað. Vikublaðið ræddi við Birnu um sýninguna og hana sjálfa.
Lesa meira
Fréttir
05.03.2021
Húsasmiðjan hefur sagt upp leigusamningum sínum á Húsavík en um er að ræða tvo samninga. Annars vegar að húsi verslunarinnar sem er í eigu einkaaðila og hins vegar vöruskemmunnar sem er í eigu Norðurþings. Núverandi samningur rennur því út í desember n.k.
Lesa meira