Zontaklúbbur Akureyrar færði Aflinu, samtökum gegn kynferðis- og heimilisofbeldi á Akureyri, peningagjöf í byrjun júlí. Aflið eru samtök sem voru stofnuð á Akureyri árið 2002 og veita ráðgjöf og stuðning öllum þeim sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi og/eða heimilisofbeldi og aðstandendum þeirra s.s. mökum, foreldrum, systkinum og vinum. Zontaklúbbur Akureyrar hefur í gegnum árin stutt samtökin og þeirra góða og mikilvæga starf.
Á síðasta ári gengu fjáröflunarverkefni klúbbsins mjög vel sem gerir honum kleyft að styðja vel við Aflið í ár, segir í fréttatilkynningu. Zontaklúbbur Akureyrar er félagsskapur sem starfar samkvæmt alþjóðlegum reglum Zontahreyfingarinnar og beitir sér sérstaklega fyrir því að styrkja stöðu kvenna á heimsvísu.