Yfir þúsund atvinnuleitendur hefja nám í skólum landsins

Í síðustu viku var undirritaður samningur um verkefnið nám er vinnandi vegur en með því er tryggt að yfir þúsund atvinnuleitendur geta hafið nám í skólum landsins í vetur og að framhaldsskólanemendum mun fjölga um rúmlega 1.500 á milli ára. Þessi samningur er m.a. afrakstur kjarasamninganna sem undirritaðir voru í maí en aðilar vinnumarkaðarins lögðu mikla áherslu á framgang þessa máls í viðræðum sínum við stjórnvöld.  

Viðstaddir undirritun samningsins voru mennta- og menningarmálaráðherra, velferðarráðherra, forsvarsmenn skóla og aðila vinnumarkaðarins. Bráðaaðgerðir samkvæmt átakinu eru tvíþættar:

a) Annars vegar að tryggja öllum yngri en 25 ára sem eftir leita og uppfylla inntökuskilyrði nám við hæfi í framhaldsskólum nú í haust.

b) Hins vegar að skapa ný námstækifæri fyrir allt að 1.000 atvinnuleitendur haustið 2011 og næstu 2 ár þar á eftir í framhaldsskólum, frumgreinadeildum, háskólum og í framhaldsfræðslu.

Fjöldi nemenda hefur verið innritaður í nám við framhaldsskóla á grundvelli átaksins og eins eru rúmlega 1.000 atvinnuleitendur að hefja nám nú í haust. Af atvinnuleitendum sem gert hafa námssamninga eru 53% konur en 47% karlar, 718 eiga lögheimili á höfuðborgarsvæðinu en 242 á landsbyggðinni, þar af 103 á Suðurnesjum. Alls eru 527 að hefja nám við framhaldsskóla og 113 við frumgreinadeildir og menntastoðir. Þá eru 320 að hefja háskólanám, þar af 259 grunnnám en 61 nám á meistarastigi. Af háskólunum eru 184 að hefja nám við HÍ, 103 við HR, 34 við HA og 22 á Bifröst. Í frumgreinanámi hefja flestir nám við Keili eða 39. Tækniskólinn tekur inn flesta atvinnuleitendur á framhaldsskólastigi eða 117, FB 60, Iðnskólinn í Hafnarfirði 51, Fjölbrautaskóli Suðurnesja 50, FÁ og MK 47 og Borgarholtsskóli 40. Atvinnuleitendur sem hefja nám í haust halda bótum sínum til áramóta. Þá mun þeim sem stunda lánshæft nám Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN) standa til boða framfærslulán frá sjóðnum. Öðrum verður tryggð framfærsla með sérstöku úrræði sem nú er unnið að því að útfæra og fjármagnað verður af Atvinnuleysistryggingasjóði.

Átakið byggir á tillögum samráðshóps ráðuneyta, allra þingflokka, aðila vinnumarkaðarins og hreyfinga námsmanna sem forsætisráðherra skipaði og er liður í yfirlýsingu kjarasamninga sem undirritaður voru í maí síðastliðnum. Sérstakur aðgerðahópur stýrir framkvæmd verkefnisins. Hópnum er stýrt af fulltrúum velferðarráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra. Auk þeirra eru fulltrúar fjármálaráðuneytis, Vinnumálastofnunar og aðila vinnumarkaðarins í hópnum. Þetta kemur fram á vef Einingar-Iðju.

Nýjast