Yfir 10 milljónir hafa safnast

Grímseyingar eru farnir að huga að nýrri kirkjubyggingu og fengu Hjörleif Stefánsson arkitekt í heim…
Grímseyingar eru farnir að huga að nýrri kirkjubyggingu og fengu Hjörleif Stefánsson arkitekt í heimsókn um liðna helgi en hann mun á næstu viku vinna að tillöguteikningum. Mynd/ Henning Jóhannesson.

„Við finnum enn fyrir miklum velvilja og söfnun gengur ágætlega,“ segir Alfreð Garðarsson formaður sóknarnefndar í Grímsey.  Söfnun er enn í fullum gangi vegna smíði á nýrri kirkju í eynni, en Miðgarðakirkja brann til kaldra kola í aðfararnótt 22. september síðastliðinn.

Hjörleifur Stefánsson arkitekt heimsótti Grímseyinga um liðna helgi og áttu íbúar góðan fund með honum að sögn Alfreðs. „Við veltum upp ýmsum hugmyndum um nýja kirkju, því það er alveg kristaltært að það verður að vera kirkja i nyrstu byggð landsins, annað er ótækt,“ segir hann. Hjörleifur fór heim með ýmsar hugmyndir í farteskinu. Mun hann vinna úr þeim á næstu vikum og teikna upp skissur af hugsanlegri nýrri kirkju og kynna íbúum. Það eina sem liggur fyrir nú er að kirkjan mun rísa á sama stað og hin fyrri.

Margir vilja leggja okkur lið

Sóknarnefnd Hallgrímskirkju hefur tilkynnt að söfnun sé hafin innan þeirra vébanda vegna byggingar kirkju í Grímsey og mun söfnun standa yfir fjóra sunnudaga í allt, sá fyrsti var á sunnudaginn var. Þá nefndi Alfreð að Kiwanismenn ætli sér að hrinda af stað söfnun til styrktar kirkjubyggingu, en rík hefð ef fyrir starfsemi Kiwanisklúbbs í Grímsey. „Það vilja margir leggja okkur lið og við erum þakklát fyrir það,“ segir hann.

Kirkjan og innanstokksmunir voru tryggð fyrir um 30 milljónir króna samtals. Búið er að greiða út bætur vegna þeirra verðmæta sem urðu eldi að bráð innandyra, en bætur vegna kirkjunnar verða greiddar þegar smíði hefst á nýrri kirkju.

Alfreð segir að litlar skemmdir hafi orðið á legsteinum í garðinum, nokkrir krossar næst kirkjunni hafi farið illa en heilt yfir sloppið vel til.   

/MÞÞ

Smelltu hér gif


Nýjast