Voru svör að handan líkleg á kaupfélagsfundi?

Séra Björn er engum líkur. Hann er t.v. á myndinni ásamt sóknarbarni sínu, Jóni Ásberg Salómonssyni …
Séra Björn er engum líkur. Hann er t.v. á myndinni ásamt sóknarbarni sínu, Jóni Ásberg Salómonssyni t.h. Mynd: JS

 

Séra Björn Helgi Jónsson, fyrrum sóknarprestur á Húsavík var vinsæll maður og á köflum hnyttinn vel. Björn sat eitt sinn sem fulltrúi á aðalfundi Kaupfélags Þingeyinga og vakti þá athygli á því að í reikningum félagsins kæmi fram að það þyrfti að greiða allháa upphæð í kirkjugarðsgjald. Beindi hann þeirri fyrirspurn til stjórnar hvort þetta fæli það í sér að hann sem sóknarprestur væri orðinn starfsmaður Kaupfélagsins.

Enginn varð til þess að svara þessari frómu fyrirspurn klerks og fór hann því í pontu og sagði að það stoðaði greinilega lítt að tala yfir þeim stjórnarmönnum þar sem þeir fengjust ekki með nokkru móti til að svara.

Varð þá einum fundarmanni að orði: “Ert þú nú vanur því, séra Björn, að fá svör hjá þeim sem þú talar yfir?”

Við þetta varð séra Birni orðfall, aldrei þessu vant. JS


Nýjast