Vorfagnaður Karlakórsins Hreims að Ýdölum

Karlakórinn Hreimur ásamt stjórnanda og undirleikara. Mynd: Pétur Jónasson.
Karlakórinn Hreimur ásamt stjórnanda og undirleikara. Mynd: Pétur Jónasson.

Hinn óborganlegi Vorfagnaður Karlakórsins Hreims, verður að Ýdölum í Aðaldal n.k. laugardag 23. apríl kl. 20.30. Vorfagnaðurinn hefur á undanförnum árum verið ein helsta árlega skemmtun og menningarviðburður í Þingeyjarþingi (ásamt og með líkast til 1. maí hátíðarhöldum á Húsavík), enda kórinn þéttur og góður og sérstakir gestir sem koma fram með kórnum jafnan valdir af kostgæfni.

Svo er einnig nú, þar sem gestir að þessu sinni eru söngvararnir Dísella Lárusdóttir og Bragi Jónsson, en Bragi á ættir að rekja í Garð í Kelduhverfi, svo sem flestum mun kunnugt. Stjórnandi er Steinþór Þráinsson og undirleik annast Steinunn Halldórsdóttir.

Veislustjórinn er heldur ekki af verri endanum, Mývetningurinn Sigurbjörn Árni Arngrímsson, sem þykir einhver öflugasti lýsandi frjálsra íþrótta norðan Alpafjalla og þó víðar væri leitað, en er einnig grínagtugt skemmtimenni eins og margir sveitungar hans. Hið margrómaða kaffihlaðborð verður svo að sjálfsögðu á sínum stað og dans verður stiginn að loknu tónleikahaldi. JS

Nýjast