Vopnaskak á Oddeyrinni

Ingólfur Sverrisson skrifar

Eyrarpúki

Oddeyrarinnar á Akureyri er fyrst getið í heimildum árið 1551 og þá ekki af gæfulegu tilefni. Þetta var árið eftir að Jón Arason og synir hans voru teknir af lífi í Skálholti. Í framhaldinu vildi danski kóngurinn fylgja því gerræði eftir og treysta völd sín í landinu til lengri tíma. Þess vegna lét hann kalla norðlenska klerka, sýslumenn og betri bændur til fundar til að láta þá skrifa undir hollustueið. Fundurinn var kallaður Oddeyrarfundurinn þar sem hann fór fram á eyðieyrinni sem Glerá flæddi um - líklega þar sem nú er Eiðsvöllurinn. Þar voru forystumenn fjórðungsins neyddir til að skrifa undir eiðinn og vopn skekin svo allir vissu  að þeir yrðu gerðir höfðinu styttri ef þeir hlýddu ekki.

Síðan liðu aldir og fátt um vopnaskak á Oddeyrinni þar til við strákarnir um miðja síðustu öld mynduðum vopnaðar sveitir okkur til varnar. Á því var talin brýn þörf þar sem fregnir höfðu borist niður á Eyri að Bóbóliðið hyggði á frekari landvinninga til norðurs.  Þeirra yfirráðasvæði var miðbærinn og syðri brekkan og því full ástæða til að bregðast við áður en það yrði of seint.  Auk þess var viss hætta á að Innbæjarliðið vildi seilast til áhrifa norðar en strákarnir þar voru sagðir gríðarlega sterkir í návígi og til alls líklegir.

Til að bregðast við þessari vá voru tvö lið stofnuð á Eyrinni.  Annars vegar Ljónskjafturinn, sem hafði umráð yfir allri Strandgötunni og norður að Gránufélagsgötu. Þeirra foringi var Halldór og var hann sagður afar öflugur, með harðskeytta og vel þjálfaða liðssveit sem þótti mjög óárennileg. Hins vegar var liðið mitt sem hét Eiturtönnin og spannaði yfir svæðið frá Gránufélagsgötu og norðurúr. Foringjar okkar voru tvíburarnir Habbi og Öddi úr Ránargötu 2 og voru ekki síður vel til forystu fallnir. Þeir hvöttu okkur óbreytta liðsmenn til að smíða vopn og verjur og einnig að æfa okkur vel í vopnaburði og bardagalistum hverskonar. Af því myndi vegur okkar vaxa og aðrir flokkar forðast að leggja í okkur fyrir hræðslu sakir.    

Því var það að við félagarnir í Eiturtönninni tálguðum stærri spýtur til sverða með hvössum eggjum, beittum oddum og hjöltum. Einnig smíðuðum við skildi sem voru í senn traustir og léttir og gátu verndað okkur gegn hvers konar atlögum. Síðan hófust hávaðasamar æfingar í skylmingum sem bárust um allar götur, upp á skúra og niður á tún þar sem ferfætlingar horfðu á okkur í forundran og töldu okkur greinilega ekki með öllum mjalla enda gerðumst við hamrammir í þessum látum öllum. Þannig liðu dagar og vikur og fyrr en varði vorum við strákarnir í Eiturtönninni orðnir að óvígum og lítt árennilegum her.  Eins og við mátti búast bárust fregnir af vaskleik okkar út fyrir yfirráðasvæðið og alla leið upp á Brekku og inn í Innbæ. Fór þá hrollur um margan góðan drenginn á þeim slóðum og hik kom á alla landvinninga þeirra til norðurs. Virtustu sagnfræðingar eru sammála um að með þessari vígvæðingu og æfingum hafi Eiturtönnin myndað það ógnarjafnvægi sem tryggði frið í bænum um áraraðir.

Ingólfur Sverrisson

 


Athugasemdir

Nýjast