Vonum enn að ekki fari allt á versta veg

Útlit fyrir að bændur nái inn góðum heyfeng í sumar eru ekki góðar, en ekki öll von úti enn. Sprettu…
Útlit fyrir að bændur nái inn góðum heyfeng í sumar eru ekki góðar, en ekki öll von úti enn. Sprettutíð stendur út ágúst og hann verður ef til vill blautari en yfirstandandi júlímánuður. Mynd/MÞÞ

-Segir Sigurgeir Hreinsson framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Eyfjarðar

Mynd og texti: Margrét Þóra Þórsdóttir

maggath61@simnet.is

 

„Það er mjög mikilvægt fyrir bændur að ná góðum heyfeng í sumar,“ segir Sigurgeir Hreinsson framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Eyjafjarðar. Fyrri slætti er lokið víðast hvar í Eyjafirði og gekk hann almennt vel. Langvarandi þurrkar gera að verkum að háin fer seint af stað og því óvíst hvenær hægt er að hefja seinni sláttinn og hvað út úr honum kemur.

Sigurgeir segir að margir bændur hafi staðið tæpt á liðnu vori. Kal í fyrravor  sem var nokkuð útbreitt setti strik sitt í reikninginn varðandi heyfeng, uppskera var minni og því hafi kalt vor nú í ár gert að verkum að hratt gekk á birgðir. Þær voru því með minna móti og þess mikilvægara að ná góðum heyfeng nú í sumar.

Sigurgeir segir að þurrkar setji vissulega strik í reikninginn og núverandi þurrkakafli sé óvenjulangur. „Þetta er ekki einsdæmi, við höfum upplifað eitthvað svipað áður en þetta er að verða nokkuð langt, það hefur vart komið deigur dropi úr lofti í margar vikur,“ segir hann.

Ekki öll von úti

Ekki er öll von úti þó spretta sé hæg enn. Sigurgeir segir að útlitið sé auðvitað tvísýnt en sprettutími standi út ágúst og jafnvel fram í september svo enn geti menn vonað að ekki fari allt á versta veg. Tún norðan heiða eru víða brunnin. „Það er fátt sem bendir til að rætist úr, veðurspá er með þeim hætti að áfram er hlýtt og þurrt og því hætt við að heyfengur verði því miður verulega rýr miðað við meðalárin. En við gælum enn við að úr rætist og ágúst verði blautari. Það sem er blautt er jákvætt í okkar augum,“ segir hann.


Athugasemdir

Nýjast