Gunnar segir að hátt verð á olíu setji mikið strik í reikninginn, en hæst hafi verðið farið í 198 krónur á lítrann, "og við notum fleiri hunduruð lítra þannig að menn sjá að þetta er mikill kostnaður." Þá hafa varahlutir, dekk og öll aðföng hækkað um allt að 40% á milli ára sem vissulega hefur sín áhrif. Gunnar segir að fyrirtækið fái hluta sinna tekna, eða nær helming í evrum og það bjargi því sem bjargað verður.
Hvað nýtt ár varðar segir hann útlitið nú ekki of bjart, en vonar að kreppan í öðrum löndum hafi ekki þau áhrif að ferðamannastraumur til landsins minnki. "Við vonum að ferðamenn verði álíka margir á árinu og þeir voru í fyrra en með því getum við vonandi haldið sjó," segir hann og bætir við að Íslandi verði ódýrt land að ferðast til vegna gengismála. Þá væntir hann þess að markaðssetning, svipuð þeirri og hrundið var af stað í kjölfar hryðjuverkaárásarinnar 11. september muni skila árangri."Það er það eina sem getur bjargað okkur, að ferðamannastraumur verið áfram svipaður og verið hefur," segir Gunnar.
Tekið við fjórum sérleyfum
SBA-Norðurleið tók í gær, föstudaginn 2. janúar, við fjórum nýjum sérleiðum, en þær voru boðnar út nýverið. Um er að ræða leiðir frá Akureyri til Egilsstaða með viðkomu í Mývatnssveit, Akureyri-Húsavík, Akureyri-Þórshöfn og Akureyri- Dalvík-Ólafsfjörður. "Þetta er auðvitað mikil búbót, að ná þessu leiðum, og verður til þess að við þurfum ekki að segja upp fólki," segir Gunnar. Ferðafjöldi milli staða verður sá sami til að byrja með eða í vetur en Gunnar segir að ný sumaráætlun taki svo gildi með vorinu og þá eflaust með aukinni ferðatíðni. SBA-Norðurleið fékk áðurnefndar sérleiðir til tveggja ára eða til loka árs 2010.