Vonskuveður og ófærð víða á Norðurlandi

Mokstur er hafinn milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar en hann tefst eitthvað vegna snjóflóðs, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Víkurskarð er ófært  og einnig er ófært um Fljótsheiði og Mývatnsöræfi, enda mikil ofankoma austan Eyjafjarðar og stórhríð þaðan og austur á Tjörnes og Möðrudalsöræfi. Snjókoma er á Öxnadalsheiði og frá Þelamörk til Akureyrar.  

Það er hálka, él og skafrenningur á Norðurlandi vestra. Þverárfjall er ófært en mokstur er hafinn. Á Austurlandi er stórhríð á Vopnafjarðarheiði, Vatnsskarði og Öxi en víðast hvar er snjóþekja, skafrenningur og ofankoma. Það er hálka og skafrenningur á Hellisheiði og í Þrengslum en hálkublettir víða á Suðurlandi. Lyngdalsheiði er ófær. Á Vesturlandi er víða nokkur hálka - og skafrenningur sumstaðar á heiðum. Á Vestfjörðum er búið að opna allar aðalleiðir en það er hálka víðast hvar. - Minnt er á að sýna varúð vegna mikilla vegaskemmda á Óshlíð.
Þrátt fyrir leiðindaveður á Akureyri var nóttin erilsöm hjá lögreglunni. Fjölmargir voru á ferli og var nokkuð um pústra. Tilkynnt var um tvær líkamsárásir og þá var ökumaður stöðvaður, grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.

Nýjast