Vonast eftir brotthvarfi veirunnar

Stefán Pétur Sólveigarson flutti til Húsavíkur með fjölskyldu sinni til að stýra Hraðinu hjá Þekking…
Stefán Pétur Sólveigarson flutti til Húsavíkur með fjölskyldu sinni til að stýra Hraðinu hjá Þekkingarneti Þingeyinga. Aðsend mynd

Stefán Pétur Sólveigarson er verkefnastjóri Hraðsins Nýsköpunarmiðstöðvar Húsavíkur og Fab Lab Húsavíkur sem fellur undir nýsköpunarsvið Þekkingarnets Þingeyinga. Stefán sér um daglegan rekstur Hraðsins og Fab Lab Húsavík, tekur á móti almenningi, fyrirtækjum og frumkvöðlum, veitir ráðgjöf í hönnun og nýsköpun. Vikublaðið spurði hann um hvað hafi staðið upp úr á nýju ári og um væntingar til ársins sem nú er gegnið í garð.

Hvað stóð helst upp úr hjá þér á árinu 2021?

  • Það að Þekkingarneti Þingeyinga hafi með frábærri vinnu tekist það metnaðarfulla verkefni að stofna Fab Lab smiðju á Húsavík og nýsköpunarmiðstöð sem fengið hefur nafnið Hraðið. 
    Ég fæ svo að vera verkefnastjóri yfir því ótrúlega spennandi verkefni sem mun nýtast fólkinu hér og í nærsveitum frábærlega á næstu árum.

    Það er algjör bónus að við fjölskyldan fluttum hingað á Húsavík sem er nokkurskonar miðpunktur fjölskyldu okkar og uppvaxtarsvæði.

Hverjar eru helstu væntingar fyrir árið 2022?

  • Helsta vonin er að þetta verði árið sem Covid fer alfarið.

    Önnur er að við fjölskyldan náum að tengjast fólkinu hér á Húsavík og nágrenni betur og festum rætur í það minnsta í einhvern tíma og getum hugsanlega heimsótt vini okkar sem búa erlendis.

    Svo verður svakalega gaman að halda áfram með það verkefni að kynna Hraðið, nýsköpunarmiðstöð Húsavíkur og Fab Lab Húsavík fyrir þeim sem það munu nota og ná að sýna að í öllum býr gríðarlegur kraftur sem svona verkefni geta leyst úr læðingi ef viljinn er fyrir hendi.

Athugasemdir

Nýjast