Von á fjölda skemmtiferðaskipa norður

Mynd/Þórir Tryggvason.
Mynd/Þórir Tryggvason.

Alls 227 skip með hátt í 200 þúsund ferðamenn innanborðs hafa boðað komu sína til Akureyrar, Hríseyjar og Grímseyjar í sumar. Engar afbókanir vegna heimsfaraldursins hafa komið enn sem komið er að sögn Péturs Ólafssonar hafnarstjóra Hafnasamlags Akureyrar. „Ég hef ekki trú á að þær berist fyrr enn skipafélögin hafa séð hver framvindan verður með bólusetningu og veiruna,“ segir Pétur í samtali við Vikublaðið.

Ekkert skemmtiferðaskip kom til Akureyrar síðasta sumar vegna heimsfaraldursins en von var á 208 skipum. Heildartekjutap hafnarinnar vegna þessa var um 400-450 milljónir en tapið hleypur hins vegar á milljörðum fyrir ferðaþjónustuna á svæðinu þar sem ferðamenn skemmtiferðaskipa fara víða og margir sem hafa hag af því. Komum skemmtiferðaskipa til Akureyrar hefur fjölgað jafnt og þétt undanfarin ár og verið mikil innspýting í ferðaþjónustuna á Norðurlandi. Pétur segir að ef ástandið verði eins og í fyrra megi fastlega reikna með að fá skip muni koma. „En ef staðan verður betri munu hins vegar skip koma til Íslands. Það er mikil ferðaþörf og fólk mjög óþreyjufullt að fara að sigla,“ segir Pétur.

Metsumar hjá Húsavíkurhöfn ef Kófið leyfir

Aldrei hafa fleiri skemmtiferðaskip verið bókuð til Húsavíkurhafnar eins og fyrir sumarið 2021 en að sögn Þóris Ö. Gunnarssonar, hafnarstjóra eru í dag 54 komur skráðar fyrir sumarið og verður sem er met ef það gengur eftir. Nýverið var greint frá því að skemmtiferðaskip hafi verið að afbóka komur sínar til Faxaflóahafna vegna heimsfaraldursins en Þórir segist ekki hafa heyrt af slíku í öðrum höfnum.  „Enn sem komið er hefur ekkert verið afbókað hjá okkur en finnst líklegt að það muni gerast hjá okkur eins og annarsstaðar. Þetta fer þó allt eftir framgangi veirunnar og hvernig gengur að bólusetja. Miðað við þær fréttir er maður ekkert allt of bjartsýnn,“ segir Þórir í samtali við Vikublaðið og bætir við að hann voni að ástandið batni í sumar. „Við vonum auðvitað að einhver kraftaverk gerist varðandi þetta og allt fari á besta veg.“

 

 

 


Nýjast