Íþróttafélagið Völsungur á afmæli í dag og er 89 ára gamalt. Félagið var stofnað 12. apríl 1927 og fór í sína fyrstu keppnisferð 19. apríl sama ár þegar keppt var við Reykdæli í knattspyrnu.
Í tilefni dagsins var boðið í kaffi og léttar veitingar á Grænatorgi, félagsaðstöðu íþróttafélagsins í íþróttahöllinni, á milli 10:00 og 12:00.
Góð mæting var í kaffið og var setið í hverju sæti þegar best var. Dregin voru upp gömul myndaalbúm sem fólk fletti og hafði gaman af. Á næsta ári á íþróttafélagið stórafmæli, þá verða liðin 90 ár frá stofnun félagsins.
Dagskráin.is var á staðnum ásamt ljósmyndara sem smellti af nokkrum myndum sem sjá má hér að neðan. EPE/volsungur.is
Lilja Skarp og Gurrý niðursokknar í ljósmyndaalbúm af gömlum völsungshetjum.
Það lá vel á Völsungskonunum Fridu, Þuru og Dísu er þær gæddu sér á kaffi og sætabrauði
Jói Kristinn, Alli Jói, Jónas framkvæmdastjóri Völsungs og Unnar Garðars í baksýn eru ekki alltaf svona alvarlegir, en það vill svo til að fyrir utan það að vera gallharðir Völsungar þá eiga þeir það sameiginlegt að halda með Liverpool í enska boltanum. Þeir eru líklega að hugsa um Evrópu-leikinn á fimmtudaginn.