Völsungur leitar að framkvæmdastjóra
Íþróttafélagið Völsungur á Húsavík hefur auglýst laust til umsóknar starf framkvæmdastjóra félagsins með aðsetur á Húsavík og er umsóknarfrestur til 1. júní n.k. . Leitað er að metnaðarfullum, jákvæðum og áhugasömum einstaklingi sem er tilbúinn að taka virkan þátt í starfsemi og þróun félagsins. Nánari upplýsingar um starfsemi félagsins má finna á heimasíðu þess, www.volsungur.is
Starfssvið framkvæmdastjóra er umsjón með íþrótta- og æskulýðsstarfi félagsins og að koma að mótun stefnu félagsins.
Frekari upplýsingar um starfið veitir Guðrún Kristinsdóttir, formaður Völsungs í síma 867-9420 eftir kl. 16 eða netfang gudrunkris@borgarholsskoli.is og volsungur@volsungur.is
Jónas Halldór Friðriksson hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra Völsungs síðustu misseri og skilað góðu verki og t.d. er félagið rekið með hagnaði. Hann sagði að starfið væri mjög fjölbreytt og skemmtilegt og samstarfið við aðalstjórn félagsins verið sérlega ánægjulegt. Ástæða þess að hann er að hætta er einfaldlega sú að hann hefur ráðið sig til nýrra starfa, sem umsjónaramaður fasteigna og framkvæmda í Þingeyjarsveit.
“Ég tel að sá sem verður ráðinn taki við góðu búi, Völsungur stendur vel, starfsumhverfið er gott og mikið af góðu fólki sem starfar innan félagsins. Ég vil nota tækifærið og þakka aðalstjórn Völsungs fyrir samstarfið sem hefur verið til fyrirmyndar og þar er vel haldið á spilum.” Sagði Jónas Halldór Friðriksson, fráfarandi framkvæmdastjóri Völsungs. JS