Völsungar stefna á bikarævintýri

Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Völsungs. Mynd/epe
Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Völsungs. Mynd/epe

„Það er bikarævintýri í uppsiglingu,“ segir Græni herinn, stuðningsmannaklúbbur Völsungs. Völsungar báru sigurorð af Tindastóli á Sauðárkróki sl. föstudag í Mjólkurbikarnum. Lokatölur urðu 0-2 með mörkum frá Aðalsteini Jóhanni Friðrikssyni og nýliðanum Santiago Feuillassier. Santiago staðfesti félagaskipti sín til Völsungs á síðasta degi vetrar.

Santiago er argentískur að uppruna og verður 27 ára nú í lok apríl. „Snaggaralegur og klókur framsækinn leikmaður sem við bindum miklar vonir við í sumar,“ segir í tilkynningu frá Völsungi um félagaskiptin.  Hann hefur undanfarin ár spilað á Ítalíu, Panama og Sviss.

Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari karlaliðs Völsungs sagði að Santiago væri mikill liðsstyrkur fyrir þá grænu frá Húsavík og að hann hafi komið í fanta formi. „Það er ekki síður mikilvægt að allir reynslumestu leikmenn liðsins hafa endurnýjað samninga sína,“ sagði hann en blaðamaður Vikublaðsins hitti á Jóhann eftir æfingu á mánudagskvöld.

Jóhann sagði að það hafi verið mikilvægt að fá góða byrjun á tímabilinu með sigri í bikarnum gegn Tindastóli. Hamrarnir koma svo í heimsókn til Húsavíkur í annarri umferð Mjólkurbikarsins á laugardag. Jóhann segir að ekkert annað en sigur komi til greina í þeim leik. „Við erum hungraðir eftir því að komast í 32 liða úrslitin þar sem öll lið verða í pottinum."

Völsungur hefur keppni í 2. deild karla með útileik gegn Fjarðabyggð á morgun laugardag. Jóhann segir að hópurinn sé að verða vel undirbúinn fyrir deildarkeppnina og sé í furðu góðu formi. „Strákarnir eru bara að koma ótrúlega vel undan vetri, þrátt fyrir að aðstæður hafi verið svona eins og þær hafa verið,“ segir Jóhann og vísar þar til Covid-19 faraldursins. Völsungar eru farnir að nýta sér tæknina við hlaupaæfingar. Leikmenn erum með gps mælingar í símum sínum þar sem hægt er að fylgjast með vegalengdum og bætingum.

Jóhann hvetur að lokum stuðningsmenn að fjölmenna á völlinn á laugardag eins og reglur leyfa en heimilt er að vera með 100 áhorfendur; þar af 50 fullorðna.


Athugasemdir

Nýjast