Vissulega eftirsjá í Sigurveigu

Geir Kristinn Aðalsteinsson forseti bæjarstjórnar Akureyrar og oddviti L-listans, segir að það sé vissulega eftirsjá í Sigurveigu Bergsteinsdóttur, enda fari þar góð manneskja, sem unnið hafi gott starf fyrir listann til margra ára. Eins og fram hefur komið í Vikudegi, sagði Sigurveig af sér sem formaður skólanefndar á dögunum og sagði jafnframt skilið við L-listann.

Ástæðan er sú að hún var ekki höfð með í ráðum þegar ákveðið var endurskoða fyrirhugaðar breytingar á morgunverði í leikskólum bæjarins og aflýsa fundi með foreldrum leikskólabarna sem halda átti fyrir jól.  Geir segir að þar sem að varaformaður skólanefndar hafi séð um undirbúning kynningarfundarins, hafi hann verið hafður með í ráðum. “Því miður gafst ekki tími til að gera formanni og öðrum skólanefndarfulltrúum viðvart áður en tilkynning um afboðun fundarins fór til fjölmiðla og inn á leikskólana enda var tíminn mjög knappur. Aðalatriðið er hins vegar að vinna málið enn betur með öllum hlutaðeigandi og komast að niðurstöðu sem allir geta sætt sig við, ekki síst foreldrar leikskólabarna,” segir Geir.

Nýjast