VÍS einn af bakhjörlum Hofs næstu þrjú starfsárin

VÍS og Menningarhúsið Hof á Akureyri hafa undirritað samstarfssamning um að VÍS verði einn af bakhjörlum Hofs næstu þrjú starfsárin. Vel á annað hundrað þúsund gesta heimsóttu Hof á fyrsta starfsári en húsið var opnað í lok síðasta sumars. Hof skipar mikilvægan sess í menningar- og tónlistarlífi Norðlendinga þar sem boðið er upp á fyrirmyndaraðstöðu fyrir fjölbreytta viðburði.  

Fyrir vikið hefur  menningarviðburðum fjölgað mjög á Norðurlandi sem hefur ekki eingöngu haft jákvæð áhrif á menningarlífið heldur samfélagið í heild, svo sem verslun, þjónustu og aðra atvinnuuppbyggingu. Hof er eitt af helstu kennileitum Akureyrar og er VÍS stoltur bakhjarl Hofs. „Það er okkur hjá VÍS mikið ánægjuefni að verða bakhjarlar Hofs og styðja þannig við metnaðarfullt starf þeirra í listum og menningu á Norðurlandi. Sem bakhjarl Hofs á Akureyri, Borgarleikhússins í Reykjavík og Sinfóníuhljómsveitar Íslands leggur VÍS sitt af mörkum til stuðnings lista- og menningarlífi landsmanna, bæði norðan og sunnan heiða," sagði Auður Björk Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri hjá VÍS, við undirritun samningsins.

„Við hjá Hofi fögnum því að fá VÍS til liðs við okkur. Framundan er spennandi menningarvetur; tónleikar, leiksýningar, kvikmyndasýningar, myndlistarsýningar og margt fleira verður á boðstólum og því fjölbreytt dagskrá í boði fyrir landsmenn alla," sagði Karl Frímannsson, formaður stjórnar Menningarfélagsins Hofs, við sama tilefni. Menningarfélagið Hof, sem annast rekstur Hofs samkvæmt samningi við Akureyrarbæ, var stofnað í október 2008 og var VÍS  einn af stofnaðilum þess.

Nýjast