Vinur er sá?

Sveinn Arnarsson.
Sveinn Arnarsson.

Tré sem hefur víðfeðmt og fjölbreytt rótarkarfi á auðveldara með að draga upp næringu fyrir sig og stendur á sterkari grunni. Við höfum náð nokkrum árangri í jafnréttisbaráttunni á víðum grundvelli þó enn séu stórir og illviðráðanlegir vegatálmar á stígnum. Við þurfum að halda áfram að rækta í okkar hjarta hugmyndina um jafnrétti til þess að geta farið lengra í vegferð að auknu janfrétti.

Samkvæmt Hagstofu Íslands eru innflytjendur um 15,2 prósent allra landsmanna. 55.354 innflytjendur búa hér á landi og hefur þessi hópur stækkað ár frá ári. Innflytjendum af annarri kynslóð fjölgaði einnig og eru því samanlagt, fyrsta og önnur kynslóð innflytjenda, um 16,8 prósent mannfjöldans. Innflytjandi er einstaklingur sem er fæddur erlendis og á foreldra, báða afa og ömmur, sem öll eru fædd erlendis. Innflytjendur af annarri kynslóð eru einstaklingar sem fæddir eru á Íslandi og eiga foreldra sem báðir eru innflytjendur.

Hér á Akureyri búa á annað þúsund manns af erlendum uppruna. Þessi hópur fólks er fjölbreyttur og býr yfir annarri og víðtækari reynslu en þeir einstaklingar sam alið hafa manninn alla sína tíð hér á landi. Í þessum hópi fólks býr gríðarlegur auður. En hvernig nýtum við þessa þekkingu og hefur þessi hópur rödd? Við lauslega yfirferð yfir ráð og nefndir á vegum Akureyrarbjæjar, bæði fastanefndir og öll önnur ráð og nefndir sem sveitarfélagið tilnefnir aðila í, fann ég ekki einn innflytjanda sem situr við borðið. Þegar málefni ungmenna eru til umræðu í ráðum og nefndum bæjarins er ungmennaráð kallað til. Mikilvægt þykir að rödd þeirra heyrist. Við höfum einnig yfir að búa öldungaráði sem er samráðsvettvangur um þjónustu við aldraða og þróun öldrunarmála innan sveitarfélagsins.

Það væri nú óskandi ef við gætum hugsað okkur að auka vægi þeirra sem hafa ekki íslensku sem móðurmál. Við hrósum okkur í hástert fyrir margt. Þegar við trónum á toppum aljþjóðlegra lista um hin ýmsu málefni erum við fljót að klappa okkur á bakið og telja okkur best í heimi. En að sama skapi ættum við virkilega að skoða hvernig við aðstoðum fólk af erlendum uppruna og hvaða rödd þeir einstaklingar hafa í samfélaginu okkar. Til að mynda hafa ekki margir af erlendum uppruna ritað í þetta blað þó vafalaust megi finna slík skrif.

Hún amma mín var ekki af auðugu fólki komin. Hún þurfti likt og margir að hafa fyrir hlutunum en með útsjónarsemi og striti kom hún börnum sínum til manns. Hennar dyr í Hafnarfirði stóðu hins vegar opnar. Þegar gesti bara að var allt gert til að sinna gesti og veita eins vel og hægt var. Ekki var farið í manngreinarálit og allir boðnir velkomnir. Norðlenskt samfélag ætti að sama skapi að gera allt sem í því valdi stendur til að opna faðminn. Samfélagið okkar er nefnilega ekkert öðruvísi en eikin í garði okkar. Tré sem býr yfir víðfeðmu og fjölbreyttu rótarkerfi sem nær til alls samfélagsins á auðveldara með að draga upp þá næringu sem það þarf til að blómstra.

Með þessum orðum óska ég þess að Aga Jastrzabek taki við pennanum í næsta blaði.


Nýjast