Krulludeild Skautafélags Akureyrar stendur fyrir alþjóðlega krullumótinu Ice Cup í Skautahöllinni á Akureyri um komandi helgi. Þetta er í 13. sinn sem mótið er haldið, en það hefur farið fram árlega á þessum tíma allt frá árinu 2004 fyrir utan árið 2016, en þá var lokað vegna framkvæmda í Skautahöllinni.
Alls taka 18 lið þátt, með samtals um 80 leikmenn. Erlendir leikmenn eru í meiri hluta og alls eru erlendu liðin ellefu, auk þess sem erlendir leikmenn spila í tveim blönduðum liðum. Eitt lið kemur frá Reykjavík og fjögur lið eru skipuð liðsmönnum úr Krulludeild SA. Þátttakendur á mótinu eru frá Kanada, Bandaríkjunum, Englandi, Sviss, Svíþjóð og Íslandi.
Ice Cup er sífellt að verða vinsælla mót hjá krullurum um allan heim og í ár þurfti í fyrsta skipti að vísa áhugasömum frá vegna plássleysis.