Vinna þarf að stefnumótun sveitarfélagsins í öldrunarmálum
Þetta var m.a, þess sem fram kom í ræðu Indu Bjarkar Gunnarsdóttur formanns félagsmálaráðs á fundi bæjarstjórnar á dögunum. " Gera þarf áætlun um fjölda rýma þ.e. skammtímarýma, dvalarrýma og hjúkrunarrýma og staðsetningu þeirra. Vaxandi ásókn er í dagvistarrými í Hlíð og eru nú 12 á biðlista, húsnæði dagvistar í Hlíð bíður uppá aukningu um 5 rými, fáist til þess leyfi frá ríkinu. Einnig er í deiglunni að skoða möguleika á endurhæfingarplássum en það eru skammtímapláss með aukinni þjálfun og þjónustu. Í samræmi við stefnumótunina, þarf að skoða notkun á eldri deildum á Hlíð. Elstu deildirnar eru frá 1962, herbergi eru lítil, sameiginlegar snyrtingar og erfitt að koma fyrir þeim hjálpartækjum sem nauðsynleg eru. Ákveða þarf hvað gera á við raðhúsin sem og húsnæðið í Bakkahlíð sem að hvorutveggja eru óhentug. Athyglisvert væri að halda íbúafund þar sem íbúar Akureyrar og væntanlegir þjónustuþegar öldrunarheimilanna gætu lagt sitt til málanna varðandi öldrunarstefnu sveitarfélagsins og þróun þjónustunnar næstu 10 árin eða svo. Haustið 2012 verður að fjölga stöðugildum í samræmi við aðrar deildir þegar nýtt hjúkrunarheimili verður tekið í notkun við Vestursíðu. Ástæðan fyrir þessu er að lengst af voru eingöngu dvalarrými í Kjarnalundi en nú eru þar 31 hjúkrunarrými og 13 dvalarrými en fjölgun stöðugilda hefur ekki orðið í takt við breytingar á þjónustunni úr dvalarrýmum í hjúkrunarrými. Fjölga þarf einnig fagfólki þar sem á undanförnum árum hefur færst í vöxt að inná öldrunarheimilin flytji fólk með fjölþætta, alvarlega sjúkdóma. Miklar breytingar hafa orðið í þróun öldrunarþjónustu allra síðustu ár. Fólk lifir lengur með flókna fjölþætta sjúkdóma. Það býr lengur heima og flytur veikara inna á öldrunarheimilin. Vaxandi hópur kemur í líknarþjónustu á öldrunarheimilin frá sjúkrahúsunum. Auk þess er í vaxandi mæli verið að þjónusta yngra fólk með alvarlega sjúkdóma og því er nauðsynlegt að velta fyrir sér hvernig þjónustuþörfum allra aðila verður best mætt í framtíðinni."