Vinna hefst vonandi í byrjun nýs árs

Vinna á skýrslu um efnahagslegar afleiðingar verði Reykjavíkurflugvöllur lagður niður.
Vinna á skýrslu um efnahagslegar afleiðingar verði Reykjavíkurflugvöllur lagður niður.

„Við höfum verið í viðræðum við ráðgjafafyrirtæki frá því í byrjun árs um að taka verkefnið að sér,“ segir Eiríkur Björn Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri, um gerð skýrslu um efnahagslegar afleiðingar verði Reykjavíkurflugvöllur lagður niður. Í grein sem Njáll Trausti Friðbertsson varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins skrifaði í Vikudag nýlega kemur fram að hann hafi á fundi bæjarstjórnar um miðjan nóvember á síðasta ári, eða fyrir rúmum 13 mánuðum lagt fram tillögu um að bæjarstjórn Akureyrar léti vinna skýrslu um efnahagslega afleiðingar þess fyrir Akureyri og þá sem nýta sér Akureyrarflugvöll ef Reykjavíkurflugvöllur yrði lagður af í núverandi mynd.

Tillaga Njáls Trausta var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. „Mér vitanlega er vinna við gerð þessarar skýrslu ekki enn hafin. Í dag eru einungis rétt rúm fjögur ár til stefnu þar sem gert er ráð fyrir einni flugbraut í Vatnsmýrinni,“ segir Njáll í grein sinni og hvetur forystufólk L-listans „að ganga í málið og sjá til þess að skýrslan klárist hið fyrsta.” Eiríkur segir að  í bókun um málið sé einnig minnst á að önnur sveitarfélög, ISAVIA, samgöngunefnd Alþingis og fleiri taki þátt í að kosta verkefnið.  Þar sem það snúi að fleiri aðilum en Akureyrarbæ hafi það bæði tekið lengri tíma og flækt vinnuferlið. Enn sé unnið að því að koma saman hópi kostunaraðila „og vonandi verður ljóst hverjir munu taka þátt í því í byrjun nýs árs þannig að vinnan geti hafist af fullu,“ segir Eiríkur.

Nýjast