Vill setja á fót miðstöð fyrir þolendur ofbeldis

„Það er nýbúið að stofna samskonar miðstöð í Reykjavík og hefur sýnt sig að það er mikil þörf fyrir …
„Það er nýbúið að stofna samskonar miðstöð í Reykjavík og hefur sýnt sig að það er mikil þörf fyrir slíka miðstöð á Akureyri," segir Halla Bergþóra Björnsdóttir.

Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi, telur brýnt að setja upp miðstöð á Norðurlandi fyrir þolendur ofbeldis. Halla kynnti hugmyndir sínar fyrir Akureyrarbæ fyrir áramót.

„Það er nýbúið að stofna samskonar miðstöð í Reykjavík sem nefnist Bjarkarhlíð og ríkið er á meðal þeirra sem fjármagnar verkefnið. Það hefur sýnt sig að það er mikil þörf fyrir slíka miðstöð á Akureyri. Þetta er hugsað sem fyrsta stopp þolenda ofbeldis og að það geti fengið úrslausn sinna mála. Þetta er ætlað fyrir 18 ára og eldri en Barnahús hjá okkur sér um yngri einstaklinga,“ segir Halla í samtali við Vikudag. „Þarna getur fólk fengið upplýsingar um sinn rétt. Oft finnst fólki erfitt að stíga inn á lögreglustöð því þá er búið að bóka það í kerfið.“

Halla segir málið á byrjunarstigi en er ágætlega bjartsýn á þetta verði að veruleika.

„Ég kallaði saman fulltrúa bæjarins, Aflsins og Háskólans á Akureyri til að ræða þetta og mér fannst vel tekið í hugmyndina. Einnig mun ég ræða við heilsugæsluna og fulltrúa Sjúkrahússins á Akureyri.“

Hún segir að verkefnið myndi byrja sem tilraun til skamms tíma. Á fundi velferðarráðs Akureyrarbæjar var tekið vel undir mat lögreglustjóra um mikilvægi þess að koma á fót miðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Akureyri.

Nýjast