Vill gera strandveiðikerfið sveigjanlegra

Mynd: Heiddi Gutta
Mynd: Heiddi Gutta

Strandveiðikerfið er of áhættusamt eins það er í dag segir Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokks,. Hann vill aukinn sveigjanleika sem gerir strandveiðisjómönnum kleift að velja sér fasta daga í mánuði.
 
„Enginn vill tapa veiðidegi og allt er lagt undir til þess að sækja fast þó brælan sé í kortunum á miðunum. Áhættan er að potturinn náist ekki á viðkomandi svæði og þá verður hans hlutur fluttur á önnur veiðisvæði og tekjutapið orðið tilfinnanlegt og þungt fyrir þann sem fyrir því verður,“ sagði Ásmundur á Alþingi í morgun. 

Strandveiðar hófust 2. maí síðastliðinn og eru veiðarnar leyfðar mánudaga til fimmtudaga. Ásmundur segir að aukin áhætta sé fólgin í fyrirfram ákveðnum dögum, veðurfar geti alltaf sett strik í reikninginn. 

„Erfitt tíðarfar í upphafi strandveiða fyrir vestan hefur kallað á slíka áhættu að sótt sé í erfiðu sjólagi og brælum. Tapaður veiðidagur verður ekki bættur, kerfið er óvsveigjanlegt og stíft og skapar áhættu við slíkar aðstæður,“ sagði Ásmundur. /epe

Nýjast