Vill bráðabirgðalög í þessari viku vegna Bakka
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, oddviti Framsóknarflokksins í Norðurlandskjördæmi eystra, vill að ríkisstjórnin setji bráðabirgðalög í þessari viku, fyrir kosningarnar á laugardaginn. Það sé nauðsynlegt til að hægt sé að halda áfram vinnu við að tengja Þeistareyki við Kröflu og uppbygginguna á Bakka.
Þetta seegir Sigmundur Davíð í aðsendri grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Hann kallar eftir því að Stjórnmálamenn hafi þor til að ríkisvaldið liðki fyrir uppbyggingu á sviði iðnaðar utan höfuðborgarsvæðisins. Sigmundur Davíð bendir á að slíkan hvata skorti bæði hjá hinum frjálsa markaði en ekki síður í stjórnkerfinu. „Þess vegna þurfa kjörnir fulltrúar almennings að vera óhræddir við að beita sér til að rétta þá skekkju af,“ skrifar hann.
Sigmundur bendir jafnframt á að kerfið eigi það til að flækjast fyrir því að verkefni á borð við iðnaðaruppbygginguna á Bakka fari af stað. „Ríkisstjórnin þarf strax í þessari viku að setja bráðabirgðalög svo hægt sé að halda áfram vinnu við að tengja Þeistareyki við Kröflu og uppbygginguna á Bakka. Ella geta getur því mikilvæga verkefni verið stefnt í óvissu mánuðum saman og það jafnvel sett í uppnám fyrir vikið.“