Vill bíða með skipulagsbreytingar vegna vindorkuvers á Hólaheiði

Á byggðarráðsfundi Norðurþings í vikunni lagði Kolbrún Ada Gunnarsdóttir fulltrúi V-lista Vinstri grænna til; að fallið verði frá fyrirhuguðum breytingum á Aðalskipulagi Norðurþings fyrir byggingu stórtæks vindorkuvers á Hólaheiði.

Kolbrún Ada

„Umfjöllun sveitarstjórnar Norðurþings um skipulagsbreytingar í tengslum við orkuverið verði frestað þar til umhverfismati er lokið að fullu. Með þeim hætti verði málsmeðferð best háttað enda liggja þá niðurstöður ítarlegra rannsókna, upplýsingaöflunar og opinbers samráðs fyrir áður en sveitarstjórn tekur sínar veigamiklu stefnumarkandi ákvarðanir um landnýtingu í gegnum Aðalskipulag.
Sveitarstjóra er falið að gera þegar í stað þær ráðstafanir sem þarf til þessa,“ segir í tillögu Kolbrúnar Ödu.

Byggðarráð frestaði afgreiðslu tillögunnar þar til í ágúst en tók undir þær áhyggjur sem birtast í tillögunni enda ljóst að málið sé umdeilt. „Nú hafa borist 14 umsagnir og athugasemdir í matsáætlunarferli Skipulagsstofnunar, engin þeirra jákvæð. Þar er bent á ýmislegt sem betur mætti fara í þessu máli,“ segir í greinargerð með tillögu Kolbrúnar Ödu

Skipulags- og framkvæmdaráð hefur haft til umfjöllunar athugasemdir sem borist hafa og gefa þær tilefni til frekari gagnaöflunar meðal íbúa á svæðinu, áður en lengra er haldið. Sveitarstjóra var falið að efna til íbúakönnunar um afstöðu til fyrirhugaðra breytinga á aðalskipulagi m.t.t. uppbyggingar vindorkuvers, þannig að niðurstöður liggi fyrir við afgreiðslu tillögu Kolbrúnar Ödu í ágúst. Þá er sveitarstjóra falið að upplýsa væntanlega framkvæmdaaðila um framkomna tillögu og stöðu málsins.

Ítarlegri umfjöllun verður um málið í Vikublaðinu sem kemur út á fimmtudag


Athugasemdir

Nýjast