Eins og Vikudagur greindi frá á dögunum hefur þingsályktunartillaga verið sett fram á Alþingi af Baldri, sem sex aðrir þingmenn styðja, um sameiningu háskólastofnana og rekstur tveggja öflugra háskóla. Baldur segir það ekki vera hugmyndina að leggja niður öflugt háskólastarf á landsbyggðinni með tillögunni. „Ég vil að háskólarnir sjálfir ákveði hvernig þetta yrði gert á faglegum forsendum en ekki að stjórnmálamenn ráði þessu. Ég hef enga forgangsröðun á því hvernig þetta ætti að fara fram. Ef Háskólinn á Akureyri og aðrir skólar á landsbyggðinni telja að sinn hagur sé bestur, bæði faglega og rekstrarlega, að þá er það bara hið besta mál að önnur stofnunin yrði t.d. á Akureyri. Það er bara of mikið að hafa sjö sjálfstæða háskóla á landinu. Vísindasjóður háskólana, samkeppnissjóðirnir, eru svo litlir að við erum ekkert að sinna alvöru vísindarannsóknum og þetta er skelfilegt ástand. Ef skólarnir á landsbyggðinni, og þar á meðal Háskólinn á Akureyri, sjá sér hag í því að efla þetta með sameiningu er það sjálfsagt mál," segir Baldur.
Jónína Rós Guðmundsdóttir þingmaður Samfylkingarinnar í norðausturkjördæmi er einn af flutningsmönnum tillögunnar og í viðtali við Vikudag á dögunum sagðist hún vilja vernda öflugt háskólanám á landsbyggðinni og talaði þá sérstaklega um Háskólann á Akureyri. Aðspurður um hvort hann sé sammála þessu svarar Baldur: „Ég er alls ekki tala fyrir því að leggja neitt niður út á landi. Það er ekki hugmyndin með þessu heldur vil ég auka flæði á milli háskólana. Það er ekkert flæði nemenda eða kennara milli skóla. Ef nemendur í Háskólanum á Akureyri ættu þess kost að fá í meira mæli kennara frá t.d. frá Bifröst eða Háskóla Íslands gerði það nemendunum mjög gott og eins með nemendaflæði milli skóla. Það er einhvern veginn allir að passa sitt en háskólastarf á ekki að snúast um háskólana sjálfa en heldur um vísindastarf og nemendur," segir Baldur.