Að venju flutti Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar stéttarfélags, ávarp á hátíðarhöldunum á Húsavík 1. maí. Hann kom víða við og ræddi m.a. um húsnæðismálin og nefndi sérstaklega mikilvægi þess að vel tækist til með nýju verksmiðjuna á Bakka.
“Verksmiðju sem verður mikil lyftistöng fyrir Þingeyinga enda verði rétt haldið á málum. Við eigum ekki að gefa neinn afslátt af umhverfismálum, við eigum heldur ekki að veita neinn afslátt af launakjörum starfsmanna, bara fyrir það eitt að fá verksmiðjuna til Húsavíkur.
Þegar áform um byggingu verksmiðjunnar voru kynnt í upphafi af eigendum hennar var skýrt tekið fram að allt yrði gert til að tryggja umhverfismálin og að launakjör starfsmanna yrðu með sambærilegum hætti og þekkist í sambærilegum verksmiðjum á Íslandi.
Framsýn og Þingiðn hafa átt í viðræðum við stjórnendur PCC á Íslandi um kjör starfsmanna. Krafan hefur verið skýr, það er að fyrirtækið standi við stóru orðin sem gefin voru í upphafi varðandi kjör og aðbúnað starfsmanna. Við förum ekki fram á annað.
Ég gef mér að PCC ætli sér að að starfa hér í sátt og samlyndi við samfélagið enda er það alltaf vænlegast til árangurs fyrir alla. Það er ekki eftirspurn eftir umræðu eða umfjöllun fjölmiðla eins og verið hefur um verksmiðju United Silicon í Reykjanesbæ þar sem nánast allt hefur farið úrskeiðis sem á annað borð getur farið úrskeiðis. Ekki síst þess vegna er mikilvægt að vel takist til með starfsemi PCC á Bakka. Það er leiðarljós stéttarfélaganna.” Sagði Aðalsteinn Árni í 1. maí ávarpi sínu. /JS