Vilji allra stendur til þess að koma rekstri LA á réttan kjöl

Málefni Leikfélags Akureyrar voru til umræðu í stjórn Akureyrastofu í gær. Halla Björk Reynisdóttir formaður stjórnar segir að engar ákvarðanir hafi verið teknar á fundinum, enda séu ekki forsendur til þess enn. ”Hins vegar liggur ljóst fyrir að vilji allra aðila stendur til þess að koma rekstri Leikfélagsins á réttan kjöl. Þannig vinna Akureyrarbær og mennta- og menningarmálaráðuneytið nú að endurnýjun samstarfssamnings um menningarmál, þar sem rekstur atvinnuleikhúss á Akureyri er áfram eitt af meginverkefnum samningsins,” segir Halla.

“Þær aðgerðir sem Akureyrarbær greip til síðasta haust höfðu það að markmiði að gera félaginu kleift að klára undirbúning fyrir yfirstandandi leikár og standa við þá samninga sem þegar höfðu verið gerðir. Þannig var líka skapað svigrúm til að vinna að lausnum í betra tómi en þá gafst og sú vinna stendur nú yfir.”

Á dögunum birtust fréttir að því að einn möguleikinn í stöðunni væri að hafa enga starfsemi hjá LA í eitt starfsár en nota framlögin til að greiða niður hallann. Halla segir að viðbrögðin við þessum fréttum hafi orðið mikil meðal allra hagsmunaaðila og að þau hafi öll verið á einn veg. “Það mátti enginn til  þess hugsa að starfsemin leggðist af, jafnvel þótt það væri aðeins tímabundið. Það er jákvætt að finna þann áhuga og stuðning sem birtist í þessum viðbrögðum, margir bera hag leikhússins fyrir brjósti og hafa hagsmuni af því að því gangi vel. Nú er það okkar, stjórnar LA og bæjaryfirvalda, að leiða saman alla sem geta lagt hönd á plóg við að rétta rekstur félagsins af þannig að hann verði aftur öruggur og fólkið í leikhúsinu geti einbeitt sér af krafti að því að skapa metnaðarfulla og eftirsóknarverða leiklist. Það er mikið í húfi,” segir Halla.

 

Nýjast