Vilja stækka JMJ-húsið og bjóða bænum sem Ráðhús

Hér má sjá líkan af hugmynd að endurnýjun hússins við Gránufélagsgötu 4 (JMJ-húsinu). Reiknað er með…
Hér má sjá líkan af hugmynd að endurnýjun hússins við Gránufélagsgötu 4 (JMJ-húsinu). Reiknað er með þeim möguleika að hækka húsið um eina hæð í viðbót frá því sem þarna er sýnt.

Ragnar Sverrisson kaupmaður á Akureyri ásamt öðrum eigendum Gránufélagsgötu 4 hafa skoðað þann möguleika að stækka húsið sem í daglegu tali er nefnt JMJ-húsið. Eigendurnir hafa látið hanna teikningar af húsinu með stækkun til austurs og vesturs í huga og einnig hækkun í allt að fimm hæðir sem þegar er búið að fá leyfi fyrir. Þannig yrði húsið nálægt 5000 fermetrar.

Í samtali við Vikublaðið staðfestir Ragnar að fram hafi komið hugmynd um að Reginn fasteignafélag kaupi stærsta hluta hússins og bjóði bænum það síðan undir skrifstofurými fyrir Ráðhús bæjarins. Þá hafi Helgi S. Gunnarsson forstjóri Regins lýst áhuga á að kaupa núverandi Ráðhús við Geislagötu af bænum, en bæjaryfirvöld hyggja á kostnaðarsamar endurbætur og viðbyggingu við Ráðhúsið.

Ragnar Sverrisson

Ragnar segist hafa viðrað hugmyndirnar við bæjarstjóra og nokkra bæjarfulltrúa og hafi lagt áherslu á að þetta gæti verið mjög hagkvæmt fyrir bæinn, bæði sparað mikil útgjöld við endurnýjun núverandi Ráðhúss og um leið leyst fjármuni úr læðingi sem hægt væri að nýta til margra nytsamra hluta fyrir bæinn og bæjarbúa. 

Spurður um viðbrögð bæjaryfirvalda segir Ragnar: „Þau hafa ekki beinlínis stokkið á þetta í fyrstu lotu en hlustað vel á það sem við erum að leggja til. Allavega þykir okkur eigendunum og Regin fasteignafélagi full ástæða til að viðra þá athyglisverðu möguleika sem þarna gætu leynst fyrir bæinn og framtíð hans,” segir Ragnar og bætir við: „Við treystum því að bæjarstjórn skoði þessar hugmyndir frá öllum hliðum og að við munum eiga gott samtal um málið á næstunni.“


Athugasemdir

Nýjast