Vilja skoða nýjan valkost fyrir staðsetningu heilsugæslustöðvar

Núverandi húsnæði heilsugæslunnar á Akureyri.
Núverandi húsnæði heilsugæslunnar á Akureyri.

Meirihluti bæjarráðs Akureyrar telur að skoða eigi betur valkosti fyrir staðsetningu heilsugæslustöðvar norðan Glerár en mikilvægt sé þó að slík skoðun leiði ekki til umtalsverðra tafa á framgangi málsins. Er því óskað eftir að auglýst verði á almennum markaði eftir leiguhúsnæði fyrir norðurstöð heilsugæslu þannig að aðrir möguleikar en Skarðshlíð 20 komi til greina, segir í bókun bæjarráðs.

Áfram verði unnin skipulagsvinna fyrir Skarðshlíð 20 og er gert ráð fyrir að aðal- og deiliskipulagsbreyting verði auglýst á næstu vikum og taki gildi á vormánuðum. Er gert ráð fyrir að lóðin verði hluti af auglýsingunni sem felur í sér að aðilar geta annað hvort lagt fram nýjan uppbyggingarkost eða þá boðið leiguhúsnæði með því að byggja á Skarðshlíð 20.

Eins og fram hefur komið þá stendur til að reisa tvær nýjar heilsugæslustöðvar á Akureyri og verður önnur þeirra reist á tjaldsvæðisreitnum við Þórunnarstræti. 

Tveir bæjarfulltrúar andvígir hugmyndinni

Hilda Jana Gísladóttir bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar og Sóley Björk Stefánsdóttir bæjarfulltrúi Vg lögðu fram bókun þar sem þær mótmæla þessari tillögu.

„Val á staðsetningu fyrir heilsugæslu á Akureyri norðan Glerár hefur verið langt, flókið en um leið vandað ferli. Eftir opið auglýsingaferli var niðurstaðan að Skarðshlíð 20 væri heppilegasta staðsetningin fyrir heilsugæslu norðan Glerár og hafa forsvarsmenn HSN lýst yfir ánægju sinni með það staðarval miðað við þeirra forsendur. Þá kallast staðsetningin vel á við hugmyndafræðina um 20 mínútna bæinn. Við teljum uppbyggingu heilsugæslu við Skarðshlíð vænlegan kost og engar nýjar málefnalegar ástæður vera til að breyta því staðarvali. Mikilvægt er að nýjar heilsugæslustöðvar á Akureyri verði teknar í notkun eins fljótt og hægt er,“ segir bókun.


Nýjast