Þar er til dæmis eini varpstaður Flórgoða í Eyjafirði og ýmsir aðrir fágætir fuglar. Húsið mun þjóna þeim tilgangi að fólk komist nær fuglunum til skoðunar án truflunar. Húsið er nú þegar í smíðum sem valfag í unglingadeild, en fé vantar til þess að ljúka verkinu og kaupa sjónauka og láta prenta myndir á plagöt, sem eru nauðsynleg í skýlinu. Þar þyrfti jafnframt að vera einfalt skilti sem vísar á fuglaskoðunarstaðinn. Þór í Kristnesi hefur gefið heimild til niðursetningar á húsinu. Fuglaskoðunarhús eru í Eyrarlandshólma, í Hrísey, í Naustaflóanum og í Krossanesborgum er fjórða húsið, en þau eru eign Akureyrarbæjar. Nú er vinna í fullum gangi á landsvísu við að markaðssetja Ísland sem fuglaland og sjálfsagt að Eyjafjarðarsveit hafi hag af því. Fram kemur í bókun að atvinnumálanefnd lýsir yfir fullum stuðningi við þetta verkefni Hrafnagilsskóla.
Sverrir Thorstensen kom á fund atvinnumálanefndar nýlega en hann hefur unnið við merkingar á fuglum síðustu 30 ár víðs vegar á landinu og er í samstarfi við Hrafnagilsskóla um fuglamerkingar og fuglaskoðun. Hann upplýsti nefndina um fuglalíf í Eyjafjarðarsveit og víðar, en ekki síst um fuglalíf Kristnestjarnar.