Vilja listnámsdeild í Háskólann á Akureyri

Háskólasvæðið á Akureyri. Ljósmynd/Þorgeir Baldursson.
Háskólasvæðið á Akureyri. Ljósmynd/Þorgeir Baldursson.

Stjórn SSNE ákvað nýverið að listnám á háskólastigi á Akureyri yrði eitt af áhersluverkefnum samtakanna árið 2021 og samþykkti 3,7 milljóna króna fjárveitingu til að undirbúa fýsileikakönnun og málþing sem stefnt er að því að halda á vordögum. Hilda Jana Gísladóttir formaður SSNE greindi frá þessu á Facebooksíðu sinni.

„Ég vona svo sannarlega að vinna þeirra fjölmörgu sem lagt hafa lóð á vogarskálarnar undanfarin ár verði til þess að listnám á háskólastigi verði að veruleika fyrr en síðar,“ skrifar Hilda Jana en komið var á starfshópi á sínum tíma með fulltrúum listamanna, SSNE, Akureyrarstofu, Listasafnsins á Akureyri, framhaldsskóla á Norðurlandi eystra og Háskólans á Akureyri.

Ýmsir valmöguleikar hafa verið ræddir og m.a. mögulegt samstarf Listaháskóla Íslands og Háskólans á Akureyri.


Athugasemdir

Nýjast