Vilja fjármuni frá ríkinu í flughlað og Dettifossveg

Framkvæmdir í nýtt flughlað á Akureyrarvelli eru stopp.
Framkvæmdir í nýtt flughlað á Akureyrarvelli eru stopp.

Stjórn Eyþings gagnrýnir Alþingi fyrir að nýsamþykkt samgönguáætlun hafi ekki verið fjármögnuð að fullu við gerð fjárlaga 2017. „Áætlunin er vanfjármögnuð um 10 milljarða króna á árinu 2017 og því hefur samgönguráðherra lagt til mikinn niðurskurð á þeim verkefnum sem til stóð að framkvæma á árinu. Eyþing hefur í takt við sóknaráætlun landshlutans lagt ríka áherslu á að uppbygging Dettifossvegar verði kláruð auk þess sem tryggt verði fjármagn í flughlað á Akureyrarflugvelli.

Nú hefur fjármagn til Dettifossvegar verið skorið niður og er hluti af fjármögnun framkvæmdanna byggður á niðurskurði á öðrum brýnum samgönguverkefnum í landshlutanum. Ekkert fjármagn er ætlað í flughlað,“ segir í ályktun Eyþings. Þar segir ennfremur að þessar framkvæmdir séu lykilatriði í því að ferðamenn dreifist sem víðast um landið. Af sömu ástæðu er aðkallandi að vegi um Brekknaheiði og Langanesströnd verði komið á framkvæmdaáætlun.

„Stjórn Eyþings fagnar áformum ríkisstjórnarinnar um að setja nú aukið fjármagn til samgöngumála og skorar á Alþingi að tryggja fjármögnun þessara framkvæmda,“ segir í ályktun.

Nýjast