Vilhelmína Lever tyllir sér í Hofi

Vilhelmína Lever og Aðalheiður Eysteinsdóttir.Mynd/ Ragnar Hólm Ragnarsson.
Vilhelmína Lever og Aðalheiður Eysteinsdóttir.Mynd/ Ragnar Hólm Ragnarsson.

Listakonan Aðalheiður S. Eysteinsdóttir afhenti bæjarbúum á Akureyri listaverk af Vilhelmínu Lever við athöfn sem fram fór í Menningarhúsinu Hofi sl. þriðjudag. Um er að ræða skúlptúr úr timbri að hætti Aðalheiðar sem sýnir maddömu Vilhelmínu í fullri líkamsstærð sitjandi á bekk og við hlið hennar er eins konar kjörkassi. Kassinn verður notaður sem hugmyndabanki og er þess vænst að gestir og gangandi geti sett í hann skrifuð skilaboð með hugmyndum um skapandi verkefni sem gætu orðið konum til hagsbóta eða framdráttar með einhverjum hætti. Vilhelmína Lever var fyrsta konan til að kjósa til sveitastjórnar á Íslandi árið 1863 og var það á Akureyri.

Í tilefni af 100 ára kosningaafmæli kvenna í fyrra var ákveðið að eingöngu kvenkyns bæjarfulltrúar og varabæjarfulltrúar sætu fund bæjarstjórnar Akureyrar hinn 16. júní. Á fundinum var meðal annars samþykkt að kaupa listaverk til heiðurs Vilhelmínu. Tillagan var samþykkt með 11 samhljóða atkvæðum og í framhaldinu var listakonan Aðalheiður fengin til verksins. Vilhelmína fæddist 1. mars 1802. Hún var dóttir Hans Vilhelms Lever kaupmanns á Akureyri sem kenndi Akureyringum kartöflurækt og fyrri konu hans Þuríðar Sigfúsdóttur. Vilhelmína keypti lóð á Akureyri árið 1834 og byggði lítið hús og hóf þar verslun 1835. Hún var kölluð „borgarinna“ eða „höndlunarborgarinna.“

Árið 1846 seldi hún Þorsteini Daníelssyni verslunarhús sín og flutti út í Krossanes. Hún kom þó aftur til bæjarins 1852 og rak verslun og veitingasölu. Árið 1861 opnaði hún veitingasölu á Oddeyri og rak hana um árabil, var hún þá gjarnan kölluð „Vertshús-Mína“. Vilhelmína fær hin bestu eftirmæli og í Norðanfara segir 4. júlí 1879: „Kona þessi var einkar vel gáfuð og í mörgu tilliti fágæt afbragskona, framkvæmdar- og starfssöm, veglynd og fús til hjálpar og velgjörðarmóðir margra fátækra og munaðarlausra.“ Í Norðlingi segir: „Hún var einhver hin framkvæmdasamasta og duglegasta kona sinnar tíðar og hafði gott hjarta. Akureyrarbær öðlaðist kaupstaðarréttindi 1862 og skv. nýrri reglugerð var kosið til bæjarstjórnar 31. mars 1863. Skv. reglugerðinni höfðu kosningarétt allir fullmyndugir menn („alle fuldmyndige Mænd“) sem ekki voru hjú, höfðu verið búfastir í bænum síðasta árið og borguðu a.m.k. 2 ríkisdali í bæjargjöld.

Vilhelmína féll undir öll þessi ákvæði og er efst á blaði á fyrstu síðu í kjörbókinni. Aftur kaus hún svo til bæjarstjórnar 3. janúar 1866. Í danska textanum átti orðið „Mænd“ örugglega að þýða karlmenn en vegna þess að í íslenska textanum stóð „menn“ en ekki „karlar“ fékk Vilhelmína að kjósa.

 

 

Nýjast