Vilhelm tvöfaldur Norðurlandameistari
Sundkappinn Vilhelm Hafþórsson frá Akureyri varð tvöfaldur Norðurlandameistari á Norðurlandamóti fatlaðra sem fram fór í Finnlandi um helgina. Vilhelm sigraði í 200 og 50 m skriðsundi og vann auk þess silfur í bæði 100 m baksundi og 100 m skriðsundi og bronsverðlaun í 100 m flugsundi. Alls var 13 manna hópur frá Íslandi sem keppti á mótinu og unnu til tólf verðlauna, þar af fimm gullverðlaun og fimm Íslandsmet voru sett.
Á mótinu var keppt eftir reglum IPC (Alþjóðaólympíuhreyfingar fatlaðra - Paralympic). Allir fötlunarflokkar kepptu saman og verðlaun voru gefin miðað við stig hvers sundmanns, þ.e. heildarstigafjölda á tíma hvers sundmanns miðað við gildandi heimsmet í flokknum.