Vildi mótmæla því að flugvöllurinn í bæjarlandinu sé notaður fyrir hernaðarbrölt
Í tillögu Andreu sagði ennfremur: "Ákveðið var þann 2. desember 2010 að bæjarstjórinn á Akureyri gerðist meðlimur í samtökunum Mayors for Peace. Reykjavíkurborg hefur nú þegar skorað á utanríkisráðuneytið og flugmálayfirvöld að beita sér fyrir því að umferð herflugvéla um Reykjavíkurflugvöll verði stöðvuð nema í þeim tilvikum þegar flugvöllurinn þjónar hlutverki varaflugvallar. Skorað er á bæjaryfirvöld á Akureyri að fara að fordæmi Reykjavíkurborgar og undirstrika þar með vilja sinn til að vinna að friði í heiminum."
Fulltrúar L-lista lögðu fram eftirfarandi bókun: "Flug erlendra herja yfir landinu er fyrst og fremst á ábyrgð núverandi ríkisstjórnar með tilvísun til þess að Ísland er aðili að Nato hvort sem fólki líkar betur aða verr. Það er því ekki hlutverk einstakra sveitarstjórna að hlutast til um utanríkismál eða aðra alþjóðlega samninga sem við búum við. Til þess eru aðrir lýðræðislega kjörnir fulltrúar sem sitja á Alþingi Íslendinga og geta fulltrúar L-lista ekki tekið undir þessa tillögu og vísar á Ríkisstjórn Íslands í þessu samhengi. Þá má geta þess að flugvöllurinn á Akureyri hefur einungis verið notaður fyrir æfingar vegna varaflugvallarhlutverks hans og málið því ekki sambærilegt við Reykjavíkurflugvöll."