Vikublaðið komið út rafrænt

Vikublaðið er komið út en vegna óviðráðanlegra aðstæðna kemur blaðið aðeins út rafrænt þessa vikuna.

 

Meðal efnis:

*Eins og fram hefur komið hefur prentsmiðjan Ásprent Stíll hætt starfsemi. Með lokun Ásprents lýkur langri prentsmiðjustarfsemi á Akureyri sem má rekja alla leið aftur til ársins 1852. Jón Ólafur Sigfússon er fyrrum framleiðslustjóri hjá Ásprent til margra ára en hann starfaði við prentiðn á Akureyri allan sinn starfsferil eða í rúm 50 ár. Hann segir lokun fyrirtækisins vera afar sorglega og mikið högg fyrir bæjarfélagið. Fjallað er ítarlega um sögu prentiðnaðar á Akureyri.

*Vikublaðið ræddi við Guðberg Ægisson sem starfað hefur sem kirkjuvörður á Húsavík síðast liðin 9 ár. Hann segist hafa áhyggjur af ástandi Húsavíkurkirkju og Bjarnahúss, safnaðarheimili kirkjunnar. Hann segir að ljóst megi teljast að ráðast þurfi í talsverðar framkvæmdir svo vel megi vera. Hann segist eiga von á að tugi milljóna þurfi endurbætur á kirkjunni og Bjarnahúsi. 

*Úlfhildur Rögnvaldsdóttir er fyrrum formaður Félags verslunar- og skrifstofufólks á Akureyri til tíu ára og starfaði einnig í verslun, banka og hjá ýmsum félagasamtökum á sínum starfsferli. Úlfhildur var bæjarfulltrúi á Akureyri fyrir Framsóknarflokkinn í þrjú kjörtímabil frá 1982-1994 og starfaði í ýmsum nefndum. Nokkur ár eru síðan hún fór á eftirlaun og hefur hún m.a. starfað með Félagi eldri borgara á Akureyri eftir að starfsferlinum lauk. Úlfhildur er Norðlendingur vikunnar og situr fyrir svörum.

*Umhverfis- og mannvirkjaráð Akureyrarbæjar hefur óskað eftir því að áfram verði unnin áætlun um endurbætur á kirkjutröppunum við Akureyrarkirkju ásamt kostnaðaráætlun. Frá því var greint á dögunum að vegna bilunar var slökkt á snjóbræðslukerfinu í kirkjutröppunum tímabundið. Andri Teitsson, formaður umhverfis-og mannvirkjaráðs, segir ljóst að snjóbræðslukerfið í tröppunum sé nánast ónýtt.

*Sigrún Heimisdóttir heldur um Áskorandapennan og Huld Hafliðadóttir skrifar bakþankapistil vikunnar.

*Meirihluti bæjarráðs Akureyrar óskar eftir því við frístunda- og velferðarráð að mynda samráðshóp um aðgerðaáætlun í málefnum eldri borgara í samræmi við velferðar- og íþróttastefnu Akureyrarbæjar. Meirihluti bæjarráðs leggur til að horft verði sérstaklega til nýútkominnar skýrslu um heilsueflingu aldraðra. Hallgrímur Gíslason, formaður félags eldri borgara á Akureyri (EBAK), ítrekaði ósk félagsins og öldungaráðs nýverið um að unnin verði heildstæð aðgerðaáælun vegna þjónustu við eldri borgara í samvinnu allra viðkomandi aðila. Fjallað er um málið í blaðinu.

*Hjólreiðamenning á Húsavík hefur vaxið fiskur um hrygg undanfarin ár og hefur óformlegt hjólreiðafélag verið starfrækt í bænum undan farin ár. Fyrir skemmstu var fyrsti formlegi aðalfundur félagsins haldinn og kosinn var formaður, Aðalgeir Sævar Óskarsson. Vikublaðið ræddi við Aðalgeir í vikunni en að sögn hans hefur hjólreiðarfólki fjölgað hratt á Húsavík upp á síðkastið.


Athugasemdir

Nýjast