Vikublaðið kemur út í dag

Vikublaðið kemur út í dag og að vanda er farið um víðan völl í blaði vikunnar.

Meðal efnis:

*Með því að afnema minni-og meirihluta í bæjarstjórn Akureyrar hefur verið rætt um að nú sé tækifæri til að hafa persónukjör í næstu sveitarstjórnarkosningum sem fara fram vorið 2022. Vikublaðið kannaði hug oddvita flokkana í bæjarstjórn Akureyrar um hvernig þeim líst á þær hugmyndir að hafa persónukjör í næstu sveitarstjórnarkosningum.

*Jón Óðinn Waage, eða Ódi eins og hann er kallaður, flutti út til Svíþjóðar ásamt konunni sinni Ingu Björk Harðardóttur í byrjun september árið 2015 en þau búa í smábæ í Mið-Svíðþjóð. Ódi er uppalinn Akureyringur og einn helsti júdófrömuður landsins. Hann starfar við kennslu í grunnskóla og talar sænskuna reiprennandi. Vikublaðið ræddi við Óda um lífið í Svíþjóð.

*Sonja Sif Þórólfsdóttir, blaðamaður á mbl.is, á ættir að rekja í Bárðardal og Tjörnes en er uppalin á Húsavík. Hún er gallharður Liverpool aðdáandi og ástríðufullur súrdeigsbakari. Sonja Sif er Norðlendingur vikunnar og situr fyrir svörum.

*Arnór Þór Gunnarsson verður í eldlínunni með íslenska landsliðinu í handbolta á HM sem hefst í kvöld en Ísland mætir Portúgal í fyrsta leiknum. Framundan eru svo leikir gegn Alsír og Marokkó í riðlinum en efstu tvö liðin komast áfram í milliriðla. Arnór verður fyrirliði liðsins á mótinu en hann er einn leikreyndasti leikmaður liðsins. Arnór, sem er uppalinn Akureyringur og Þórsari, leikur með Bergischer HC í þýsku úrvalsdeildinni. Arnór er íþróttamaður vikunnar að þessu sinni.

*Freyr Ingólfsson er efnaverkfræðingur og framkvæmdastjóri framleiðslu hjá Elkem á Íslandi. Hann er búinn að vera að hrærast í kísiliðnaðinum undanfarin 4 ár og ný tekinn við sem framkvæmdastjóri framleiðslu Elkem á Íslandi en var þar á undan hjá PCC BakkiSilicon sem hráefnasérfræðingur, framleiðslustjóri og framkvæmdastjóri lokavöru. Freyr er matgæðingur vikunnar og kemur með nokkrar úrvals uppskriftir.

*Líkamsræktarstöðvar landsins fengu að opna í gær með miklum takmörkunum þó eftir rúmlega þriggja mánaða lokun. Einungis eru leyfðir hópatímar þar sem allt að 20 manns mega koma saman. Í World Class verður boðið upp bæði þol-og styrktarþjálfun í hópatímum. Sigurður Gestsson hefur starfað sem einkaþjálfari í áraraðir og á stóran kúnnahóp í World Class. Hann fagnar því að nú sé hægt að opna að einhverju leyti.

Hægt er að gerast áskrifandi með því að smella hér. 

 


Nýjast