Vikublaðið kemur út í dag

Vikublaðið kemur út í dag og að vanda kennir ýmissa grasa í blaðinu. Meðal efnis:

*Nýtt lúxushótel sem áætlað er að rísi rétt við Grenivík í Eyjafirði mun hafa mikla þýðingu fyrir sveitarfélagið að sögn Þrastar Friðfinnssonar sveitarstjóra í Grýtubakkahreppi. Eins og fjallað hefur verið um munu Björgvin Björgvinsson og Jóhann Haukur Hafstein, eigendur Viking Heliskiing og Scandic Guides, í samstarfi við erlenda fjárfesta, hefja byggingu á glæsilegu lúxus hóteli rétt við Grenivík. Rætt er við Þröst Friðfinnsson um áhrif hótelsins á sveitarfélagið.

*Brynja Sassoon er nýflutt til Húsavíkur eftir að hafa búið í Svíþjóð í 30 ár. Þar kynntist hún verkefni sem byggir á því að auka lífsgæði eldra fólks, ekki síst þeirra sem neyðast til að hætta á vinnumarkaði vegna aldurs. Verkefnið snýr að því að aðstoða fólk sem er komið af vinnumarkaði sökum aldurs eða örorku til að taka að sér tímabundin störf á þeirra eigin forsendum. Blaðamaður Vikublaðsins settist niður með Brynju á dögunum og ræddi verkefnið sem hún stýrir í samtarfi við Vinnumálastofnun og Framsýn, stéttarfélag.

*Brynjar Helgi Ásgeirsson er nýr forstöðumaður í Hlíðarfjalli en senn styttist í opnun og því í mörg horn að líta hjá nýjum forstöðumanni. Brynjar er nýlega tekinn við og hefur verið að koma sér inn í starfið undanfarna daga. Hann var áður eigandi og einn af þjálfurum hjá CrossFit Hamar, en hreyfing og útivist er eitt af helstu áhugamálum Brynjars sem er Norðlendingur vikunnar. Vikublaðið fékk hann til svara nokkrum spurningum um nýja starfið og sjálfan sig.

* Tafir hafa orðið á framkvæmdum við byggingu raðhúsa í Grundargarði á Húsavík en það er Faktabygg sem byggir í samstarfi við Búfesti. Um er að ræða tvö raðhús, hvort með sex íbúðum. Svo virðist vera sem útreikningar norskra verkfræðinga hafi ekki gert ráð fyrir að Húsavík liggur á einu virkasta jarðskjálftasvæði landsins.

*Að mati Heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra er aðkallandi að setja í forgang ráðstafanir til að draga úr svifryksmengun í Akureyrarbæ og að skima ástand m.t.t. svifryks víðar. Þetta kom fram á fundi heilbrigðisnefndarinnar í byrjun nóvember. Andri Teitsson, formaður umhverfis-og mannvirkjaráðs Akureyrarbæjar, segir bæjaryfirvöld líta á stöðuna með alvarlegum augum.

*Tryggvi Már Gunnarsson, verkefnastjóri við Háskóla Íslands og ljósmyndari, sér um Matarhornið þessa vikuna og kemur t.a.m. gómsæta uppskrift af grænmetis hamborgara og súkkulaðimús sem tilvalið er að prófa yfir helgina.

Smelltu hér til að gerast áskrifandi.

 


Nýjast