Kraftlyftingamaðurinn Viktor Samúelsson úr KFA er íþróttamaður Akureyrar árið 2015. Kjöri íþróttamanns Akureyrar var lýst í verðlaunahófi á vegum Íþróttabandalags Akureyrar og Íþróttaráðs Akureyrarbæjar sem fram fór í Menningarhúsinu Hofi fyrr í dag. Alls tilnefndu 16 aðildarfélög íþróttamann ársins úr sínum röðum. Þetta er í fyrsta skipti sem Viktor hlýtur þetta sæmdarheiti.
Þorbergur Ingi Jónsson úr UFA varð annar og Bryndís Rún Hansen úr Sundfélaginu Óðni varð þriðja. Viktor á langan afreksferil að baki þó hann sé ungur að árum. Hann vann það afrek í haust að verða yngstur Íslendinga til að lyfta 300 kg í bekkpressu. Viktor er í 18. sæti á heimslista í sínum þyngdarflokki og fremstur á Norðurlöndunum í sínum aldursflokki.
Hann var ósigraður innanlands á árinu 2015, setti fjölda Íslandsmeta og eitt Norðurlandamet og er stigahæsti kraftlyftingamaður landsins óháð kyni og þyngdarflokki. Besti árangur hans á árinu 2015 er 357,5 kg í hnébeygju, 300 kg í bekkpressu og 320 kg í réttstöðulyftu – samtals 970,0 kg.
Meðal afreka hans á árinu 2015 má nefna bronsverðlaun samanlagt og bronsverðlaun í bekkpressu í
-120 kg flokki á HM ungmenna og silfurverðlaun í bekkpressu -120 kg flokki á EM ungmenna. Hann er Íslandsmeistari í -120 kg flokki og varð stigahæstur óháð kyni og þyngdarflokki á Íslandsmótinu í klassískum kraftlyftingum, einnig Íslandsmeistari og stigahæstur í bekkpressu og réttstöðulyftu.
Þetta er í 37. sinn sem íþróttamaður Akureyrar er kjörinn, en það var fyrst gert árið 1979. Að Viktori meðtöldum hafa alls 21 einstaklingur nú hlotið þetta sæmdarheiti, oftast allra júdókappinn Vernharð Þorleifsson, sjö sinnum.
Heiðursviðurkenning og styrkir vegna landsliðsfólks og Íslandsmeistara
Við sömu athöfn veitti íþróttaráð Akureyrar Hauki Þorsteinssyni heiðursviðurkenningu, en hann var um árabil formaður Íþróttafélagsins Eikar á Akureyri. Þá fengu forsvarsmenn íþróttafélaga á Akureyri afhenta styrki og viðurkenningar vegna Íslandsmeistara og landsliðsfólks úr þeirra röðum á árinu 2015. Íslandsmeistarar úr akureyrskum íþróttafélögum töldust 242 og 102 einstaklingar tóku þátt í landsliðsverkefnum á árinu.